Ingibjörg líka hlynnt viðræðum við ESB

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir.
Ingibjörg R. Guðmundsdóttir.

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ, er hlynnt viðræðum um aðild að Evrópusambandinu. Hún er í kjöri til forseta ASÍ á föstudag og keppir við Gylfa Arnbjörnsson, framkvæmdastjóra ASÍ, um þann stól. Hingað til hefur hún verið full efasemda gagnvart ESB-aðild, en í ljósi efnahagsástandsins og vandræða í gjaldeyrismálum hefur hún komist að þessari niðurstöðu.

„Við erum að leita leiða til að auka stöðugleika og finna mynt sem nýtist okkur til þess. Í þessari stöðu sem við erum núna virðist eina færa leiðin vera að Ísland fari í aðildarviðræður og kanni hvernig sá samningur gæti litið út. Hann yrði svo lagður fyrir þjóðina. Ef það yrði samþykkt ættum við möguleika á að sækja um aðild að evrópska myntbandalaginu,“ segir Ingibjörg.

Þar með er ljóst að málefnamunurinn á Ingibjörgu og Gylfa í forsetakjörinu er harla lítill í Evrópumálunum. Gylfi hefur lengi verið hlynntur ESB-aðild og því skipti þetta máli fyrir langtímastefnu Alþýðusambandsins. 

„Ég hef verið lítið spennt fyrir aðild að Evrópusambandinu. Það hefur hins vegar enginn bent mér á neitt annað betra,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka