Rafmagn fór af Ísafirði

Hríð er á Ísafirði þessa stundina.
Hríð er á Ísafirði þessa stundina. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Rafmagn fór af Ísafjarðarbæ nú laust fyrir klukkan 18. Skv. upplýsingum frá Orkubúi Vestfjarða fór rafmagnið af vegna óveðurs. Talið er að rafmagnslaust sé á öllum norðanverðum Vestfjörðum. Ekki er vitað hvenær rafmagn kemst á aftur.

Ekki liggur neitt fyrir með skemmdir að svo stöddu enda erfitt að meta slíkt sökum veðurs.

Búist er við norðan og norðvestan 20-25 metrum á sekúndu yfir Vestfjörðum fram á nótt, suðvestanlands undir kvöld og norðanlands á morgun.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir ljóst, að áhrifa veðursins í kvöld og nótt mun helst gæta á Vestfjörðum, Snæfellsnesi, Reykjanesi og á Höfuðborgarsvæðinu.  Viðbragðsaðilar á þessum stöðum eru með nokkurn viðbúnað vegna þess. 

Slysavarnafélagið Landsbjörg verður með björgunarsveitir í viðbragðsstöðu og munu björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu vera með mannskap á vakt í nótt.  Landhelgisgæslan er með varðskipið Týr í viðbragðsstöðu á Faxaflóa ef á þarf að halda ásamt því að danskt varðskip er í höfn í Reykjavík og tilbúið til aðstoðar. 

Hvetur almannavarnadeildin almenning til að fylgjast áfram vel með veðurspá og vera ekki á ferðinni á nauðsynjalausu þar sem áhrifa veðursins gætir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert