Ungir jafnaðarmenn (UJ) hafa sent frá sér ályktun þar sem þeir hafna alfarið upptöku norskrar krónu. Þeir segja forystumenn stjórnmálaflokka tala eins og vélmenni sem stillt voru á síðustu landsfundum flokkanna og átti sig ekki á gjörbreyttum aðstæðum á Íslandi.
Ályktun UJ er eftirfarandi:
Ef af yrði mundi Ísland missa hluta af fullveldi þjóðarinnar. Ísland mundi ekki hafa neitt að segja um stjórnun peningamála á landinu því Ísland hefði enga aðkomu að stjórn Seðlabanka þjóðarinnar. Ef Ísland tæki upp Evru hefði Ísland eitt atkvæði í evrópska seðlabankanum eins og aðrar þjóðir sem hafa evru sem gjaldmiðil. Þá ættum við rödd í stjórn seðlabankans sem við hefðum ekki í norska seðlabankanum. Mikilvægt er að hafa þessa rödd til að tryggja að íslenskt fjármálakerfi hafi nauðsynlegan bakhjarl svo að við lendum ekki aftur í sömu hörmungum og nú ríða yfir. Fyrir liggur að íslenski seðlabankinn og krónan voru veikar stoðir sem brugðust og það verður að byggja nýtt Ísland á grunni sem kemur til með að standa og skapar traust út í heim.
Þar ofan á er eitt af skilyrðum fyrir inngöngu í Evrópusambandið að aðildarríki hafi sjálfstæða mynt. Það þarf ekki að koma á óvart að stjórnarandstaðan vilji leggja stein í götu evrópusambandsaðildar án þess að ræða það sérstaklega við þjóðina. Hún og Sjálfstæðisflokkurinn hafa lengi verið á móti lýðræðislegri hugmynd Samfylkingarinnar um að ganga til viðræðna við Evrópusambandið og leggja aðildarsamning að Evrópusambandinu í dóm þjóðarinnar.
Burtséð frá þessum rökum ætti Ísland mun frekar að taka upp evru frekar en norska krónu. Meirihluti viðskipta Íslands er við lönd sem nota evru. Upptaka evru mundi minnka meira þær miklu sveiflur sem Ísland hefur búið við og valdið almenningi og fyrirtækjum til miklum skaða. Evran er líkleg til að laða að erlent fjármagn inn í landið, auðvelda Íslendingum útflutning og gefa íslenskri ferðaþjónustu færi á að markaðsetja sig betur.
Í Svíþjóð og Danmörku er umræðan að snúast á þann veginn að fórna eigi gömlu gjaldmiðlum þjóðanna og taka upp evru. Það er í takt við hugmyndir um að einungis nokkrir stórir gjaldmiðlar verði í heiminum.
Ungir jafnaðarmenn telja að stjórnarandstaðan og Sjálfstæðisflokkurinn ráfi um villigötur í umræðum um framtíð peningamála á Íslandi. Þeir tala eins vélmenni sem stillt voru á síðustu landsfundum flokkanna og átta sig ekki á gjörbreyttum aðstæðum á Íslandi.“