Málflutningur um frávísunarkröfur Jóns Ólafssonar og fleiri sem sæta ákæru, einkum vegna skattalagabrota, átti að fara fram í dag en óhætt er að segja að þinghaldið hafi tekið nokkuð óvænta stefnu í morgun. Það snerist reyndar um frávísunarkröfu en af annarri ástæðu en ætlað var.
Jón Ólafsson er m.a. ákærður fyrir að hafa komið sér hjá að greiða 361 milljón í skatta. Hinir fjórir, Hreggviður Jónsson, Ragnar Birgisson og Símon Ásgeir Gunnarsson eru bornir mun minni sökum. Ákæran gegn þeim var gefin út í ágúst en enn hafa dómstólar ekki fjallað efnislega um málið heldur hefur það tafist vegna deilna um formhlið þess, m.a. um hvort Sigurður G. Guðjónsson mætti verja Jón Ólafsson en Hæstiréttur dæmdi að hann mætti það ekki.
Í morgun átti að flytja málið um frávísunarkröfur sakborninga. Kröfurnar eru ekki fyllilega samhljóða enda eru mál þeirra ólík. Allir krefjast þeir þó meðal annars að málinu verði vísað frá þar sem rannsókn þess hafi tekið óhóflegan tíma eða um sex ár.
Ekkert varð úr þeim málflutningi því í morgun var komin upp alveg ný staða. Verjendur krefjast þess nú að málinu verði vísað frá dómi þar sem saksóknari efnahagsbrotadeildar hafi á föstudag sent dómaranum í málinu, Símoni Sigvaldasyni, skriflega greinargerð. Ragnar Aðalsteinsson hrl., verjandi Jóns Ólafssonar, benti á að slíkt væri óleyfilegt enda eigi málflutningur í héraði að vera munnlegur. Málinu yrði því að vísa frá en ellegar yrði dómari að víkja sæti og nýjan að skipa í hans stað.
Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari, hafnaði þessu benti m.a. á að verjendur hefðu lagt fram svo ítarlegar bókanir undir rekstri málsins að jafna mætti við greinargerðir. Samtals hefðu bókanir þeirra verið 30 blaðsíður að lengd en greinargerðin sem hann skilaði dómara á föstudag var 17 blaðsíður. Það kom einnig fram í máli hans, og virtist koma verjendunum í opnu skjöldu, að það var dómarinn sem óskaði eftir greinargerðinni.
Von er á úrskurði í málinu um klukkan 13 í dag og má fastlega búast við að hann verði kærður til Hæstaréttar, hver sem niðurstaða dómarans verður.