Áfram í gæsluvarðhaldi

Lögreglan við amfetaverksmiðjuna í Hafnarfirði
Lögreglan við amfetaverksmiðjuna í Hafnarfirði mbl.is/Júlíus

Tveir karlar voru í héraðsdómi í dag úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 27. nóvember að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þeir eru grunaðir um aðild að ætlaðri framleiðslu fíkniefna í Hafnarfirði. Mennirnir, sem eru á þrítugs- og fertugsaldri, hafa áður komið við sögu hjá lögreglu, m.a. vegna fíkniefnamála. Þeir hafa kært úrskurðinn til Hæstaréttar.

Mennirnir sem um ræðir, Jónas Ingi Ragnarsson og Tindur Jónsson, voru báðir á reynslulausn eftir að hafa setið í fangelsi fyrir alvarlega glæpi þegar þeir voru handteknir í tengslum við amfetamínverksmiðjuna í Hafnarfirði.

Jónas Ingi var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi árið 2005 fyrir aðild sína að hinu svokallaða líkfundarmáli en Tindur Jónsson var vorið 2006 dæmdur í sex ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps með sveðju og fjórar aðrar líkamsárásir. Fyrir dómsuppkvaðningu hafði Tindur setið í gæsluvarðhaldi í sex mánuði.

Í iðnaðarhúsnæðinu, þar sem verksmiðjan var til húsa, var lagt hald á háþróaðan tækjabúnað sem nota má til fíkniefnaframleiðslu. Þar fannst einnig efni á framleiðslustigi, 20 kg af hassi og efni sem talið er vera fullunnið amfetamín eða metamfetamín.

Ljóst þykir að framleiðslugeta verksmiðjunnar hafi verið afar mikil. Skömmu áður en mennirnir voru handteknir höfðu þeir flutt til landsins eitt tonn af mjólkursykri sem er notaður sem íblöndunarefni. Lögreglan telur að framleiðslan hafi ekki verið lengi í gangi áður en hún lét til skarar skríða í síðasta mánuði.

 
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka