Ástráður Eysteinsson, prófessor í bókmenntafræði og forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, fékk í dag afhent alþjóðleg bókaverðlaun fyrir verkið Modernism sem kom út á síðasta ári. Verðlaunin eru veitt árlega á þingi Modernist Studies Association, sem eru ein stærstu samtök á sviði bókmenntafræði á Vesturlöndum.
Ástráður hlýtur verðlaunin ásamt meðritstjóra sínum, Vivian Liska, sem er prófessor í þýskum bókmenntum við Antwerpenháskóla í Belgíu.
Verkið Modernism hefur að geyma nýjar greinar um módernisma eftir 65 fræðimenn frá mörgum löndum. Samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands hafa Ástráður og Liska um árabil unnið að skipulagningu og ritstjórn þessa stóra greinasafns sem er alls 1043 blaðsíður í tveimur bindum. Þau skrifa auk þess inngang, eftirmála og formála að öllum 11 köflum verksins.