„Alþingi verður svipminna og leiðinlegra, eftir að Guðni Ágústsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hverfur þaðan," skrifar Björn Bjarnason, dómsmálaráherra, á vef sinn í dag.
„Við Guðni höfum um árabil setið saman í ríkisstjórn, svo að ekki sé minnst á Þingvallanefnd. Okkur tókst ávallt að leysa úr málum í góðri sátt og kveð hann sem vin á hinum pólitíska vettvangi, þótt flokksbönd hafið skilið á milli okkar."
Björn vísar á vef sínum til orða Bjarna Harðarsonar, flokksbróður Guðna og samþingmanns á Suðurlandi:
„Líklega er það rétt hjá Guðna að eftirláta flokkinn því fólki sem hefur nú um langt skeið beitt öllum meðulum til að ná þar völdum. Leyfa þeim sem eyðilagt hafa flokksstarfið allt þetta kjörtímabil að spreyta sig. Kannski rís flokkurinn í höndum þessa fólks þegar við framsóknarmennirnir erum farnir.
Við Guðni ræddum þessa ákvörðun í gærkvöldi og ég studdi hann heilshugar í því sem hann er að gera. Ekki vegna þess að mér hugnaðist þessi lending, heldur vegna þess að ég tel að þær aðstæður sem honum voru skapaðar í flokknum hafi verið utan þess sem hægt sé að leggja á nokkurn mann.“
Þegar þessi orð eru lesin, hljótum við, sem utan stöndum, að spyrja, hvað í ósköpunum sé á seyði í Framsóknarflokknum. Hvernig hefur verið vegið að Guðna? Af hverjum?, skrifar Björn Bjarnason ennfremur.