Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, kveðst hafa svarað utanríkisráðuneytinu á sínum tíma um afhendingu bókagjafar frá forseta Íslands til forseta Bandaríkjanna og þau svör verið tekin að fullu gild. Í nýútkominni bók Guðjóns Friðrikssonar, Saga af forseta, segir að það hafi tekið 1 ár og 7 mánuði að koma bókunum til skila.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sendi bækurnar til sendiráðs Íslands í Washington í mars 1998 en þá var Jón Baldvin þar sendiherra.
„Það er ekkert einfalt mál að afhenda forseta Bandaríkjanna gjafir vegna þess að um það gilda ákveðnar reglur," sagði Jón Baldvin. Hann sagði að sumar gjafir mætti afhenda forsetanum til eignar persónulega en aðrar fari í vöruhús sem geymir slíkar gjafir. Hann segir að hefðu bækurnar mátt fara í síðari flokkinn hefði verið hægt að afhenda þær daginn eftir að þær bárust sendiráðinu. „Krafa forsetans [Ólafs Ragnars Grímssonar] var að þetta yrði gert með sérstökum fundi - atburði."
Jón Baldvin segir að eftir því hafi verið leitað að koma á fundi til að afhenda Bill Clinton bækurnar. „Til þess var notuð bakdyraleið, nefnilega samband sendiráðsins við forsetafrúna Hillary Clinton. Það var samstarf við hana og samstarfslið hennar í tengslum við landafundaárið. Niðurstaðan varð að lokum sú að áður en Hillary kom til Íslands í tengslum við þau mál þá beitti hún áhrifum sínum til að koma á fundi sem varð með Clinton. Fundurinn átti að taka 10 mínútur en stóð í þrjú kortér. Þannig var málið leyst en það var algjör undantekning frá reglum.
Um umkvörtun af hálfu forseta [Íslands] um að þetta hafi tekið tíma er bara það að segja að það skipti ekki hinu minnsta máli. Um þetta liggja fyrir skýrslur í utanríkisráðuneytinu. Forsetinn sjálfur lét forsetaritara skrifa dónaleg bréf út af þessu til utanríkisráðuneytisins sem mér voru sýnd og ég svaraði þeim lið fyrir lið; rakti þar rangfærslur og útúrsnúninga. Þessi gögn liggja fyrir. Þarna er væntanlega sögð bara ein hlið málsins. Þetta var engin vanræksla og fullgild svör til við því hvers vegna þetta tók tíma," sagði Jón Baldvin.