Tjái mig ekki um einstök efnisatriði

„Það er bjargföst afstaða mín á þessu stigi að tjá mig ekki um einstök efnisatriði eða frásögn í þessari bók. Það verður hver og einn að dæma fyrir sig á grundvelli þeirra heimilda sem Guðjón Friðriksson reiðir fram og þeirra öguðu vinnubragða og þess fræðilega mannorðs sem hann hefur að verja,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, um nýútkomna bók Guðjóns Friðrikssonar, Saga af forseta, þar sem fjallað er um forsetatíð Ólafs Ragnars. Bókin hefur vakið mikla athygli vegna lýsinga á samskiptum Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, og forsetans, en forsetinn vill ekki tjá sig um þær lýsingar, fremur en aðrar frásagnir Guðjóns.

Um hlutverk sitt við samningu bókarinnar segir forsetinn: „Ég féllst á að veita Guðjóni aðgang að bréfabókum forsetaembættisins, ræða við hann og svara spurningum hans á heiðarlegan og opinn hátt en jafnframt tók ég það skýrt fram að þetta væri hans bók en ekki mín og að ég virti algjörlega fræðilegt sjálfstæði hans. Ég sagði honum að það væri ekki víst að ég svaraði öllum spurningum hans vegna þess að ég teldi að samtöl mín við ýmsa ráðamenn og aðra væru enn bundin trúnaði. Á síðari stigum samþykkti ég að veita myndritstjóra bókarinnar aðgang að myndasafni mínu og forsetaembættisins. Að öðru leyti er verkið eðli málsins samkvæmt ritverk Guðjóns og sýn hans á mig, forsetaembættið, samtímann og atburðarásina. Þetta er ekki ævisaga mín. Ef hún verður einhvern tíma skrifuð eða ég skrifa hana sjálfur þá verður í henni töluvert öðruvísi efni og annars konar nálgun.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert