„Þetta eru hár hiti, beinverkir og kvef. Sum börnin hafa fengið lungnabólgu og tvö hafa verið greind með RS-veiruna,“ segir Soffía Guðmundsdóttir, leikskólastjóri í Sólbrekku á Seltjarnarnesi, en í síðustu viku voru á bilinu 14-15 börn af 17 börnum á yngstu deild leikskólans veik. „Þetta eru bara yngstu börnin, þau eldri eru ekki veik.“
Soffía segir að hringt hafi verið í foreldra og þeir beðnir að fylgjast vel með börnum sínum og tala við lækni ef ástæða þætti til. „Ég er búin að vera í þessu lengi, og man ekki eftir svona miklum veikindum,“ segir hún. „Það hefur kannski verið hluti af börnunum veikur áður og upp í helming, en ekki svona mörg.“
Ásgeir Haraldsson, yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, segir að skæðar pestir séu mikið í gangi um þessar mundir, en að RS-veiran hafi ekki greinst nema í óverulegum mæli og að enn sé inflúensa ekki komin til landsins.