„Við vorum öll harmi slegin yfir þessari uppákomu, því þetta eru drengir úr okkar hópi,“ segir Guðmunda Lára Guðmundsdóttir, skólastjóri Njarðvíkurskóla, um alvarlega líkamsárás sem gerð var skammt frá skólalóð Njarðvíkurskóla sl. fimmtudag. Að sögn Guðmundu Láru hefur árásarmönnunum þegar verið vikið úr skólanum. „Það þarf að finna önnur úrræði fyrir árásaraðilana. Nú tekur fræðsluráð og barnavernd við þessu máli og það er allt í föstum farvegi og tekið föstum tökum. Vonandi verður hægt að hjálpa þessum drengjum til þess að læra af mistökum sínum. Við óskum þeim alls hins besta í því ferli.“
Spurð hver viðbrögð skólastjórnenda hafi verið í framhaldi af árásinni segir Guðmunda Lára að rætt hafi verið við alla nemendur skólans strax daginn eftir árásina. „Við byrjuðum á því að ræða við nemendur á unglingastigi um alvarleika árásarinnar og tjáðum þeim hversu hrygg við værum yfir því að strákar frá okkur gætu gert svona. Þetta er eitthvað sem við viljum ekki að gerist hér. Við höfum því lagt áherslu á mikilvægi þess að nemendur komi fram við hvert annað eins og þau vilja að aðrir komi fram við þau,“ segir Guðmunda Lára og bendir á að frá síðasta hausti hafi skólinn unnið að því að innleiða kerfi sem nefnist stuðningur við jákvæða hegðun þar sem kjörorðin eru virðing, ábyrgð og vinsemd.
Að sögn Guðmundu Láru voru unglingarnir allir sammála um að ekki mætti leysa mál með ofbeldi og að þau vildu ekki að skólinn yrði þekktur fyrir svona uppákomu. Í framhaldi af fundinum hefði verið gerð tillaga um að unglingarnir færu í heimsóknir í yngri bekkina til þess að tala um mikilvægi þess að ekki mætti útkljá deilur með ofbeldi og aldrei mætti fylgjast með slagsmálum án þess að láta einhvern fullorðinn vita af þeim um leið.
„Unglingarnir töldu að það myndi gefast betur og vera auðveldara að fá yngri krakkana til þess að taka þennan boðskap alvarlega ef hann kæmi frá eldri samnemendum þeirra heldur en fullorðna fólkinu,“ segir Guðmunda Lára og segir þetta hafa verið afar jákvætt framtak unglinganna. Tekur hún fram að í tengslum við umrædda árás hafi þeir sem urðu vitni að henni sem betur fer látið skólastjórnendur vita um hæl. „Þetta gerðist nú ekki á löngum tíma, þannig að þegar starfsmenn komu á staðinn var árásin yfirstaðin.“
Rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum á alvarlegri líkamsárás sem fest var á filmu í Njarðvík skömmu fyrir helgi er langt komin og verður niðurstaða rannsóknarinnar í framhaldinu send til ríkissaksóknara um leið og hún liggur fyrir. Að sögn Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, fulltrúa hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum, getur lögregluembættið ekki klárað rannsókn málsins fyrr en læknisvottorð þolanda liggur fyrir, en það getur tekið eina til tvær vikur að skera úr um hvers konar meiðsl þolandinn hlaut. Segir hún ástæðuna vera þá að ekki hefur reynst unnt að meta áverkana á þolanda vegna þess hversu bólginn hann er eftir árásina. Þannig hafi t.d. ekki reynst unnt að meta hvort þolandi sé brotinn.