Vantar viðurlög gagnvart stjórnvöldum

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umboðsmaður Alþingis hefur ítrekað ábendingar um að ástæða kunni að vera til þess að Alþingi setji í lög ákvæði um viðurlög gagnvart stjórnvöldum, t.d. um bótagreiðslur, þegar þau fylgja ekki réttum málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins við úrlausn á málum borgaranna. Umboðsmaður segir lagagrundvöll fyrir miskabótum sjaldnast fyrir hendi þegar stjórnvald fylgir ekki lögum. Það eigi sérstaklega við þegar umsækjendur um opinber störf eiga í hlut.

Þessi ítrekun er sett fram í nýlegu áliti umboðsmanns vegna kvörtunar konu sem sótti um tvö störf hjá ríkisstofnun en fékk ekki. Konan taldi að framkvæmdastjóri ríkisstofnunarinnar hefði ýtt umsóknum sínum til hliðar og byggt ákvörðun sína um ráðningu í störfin á sögusögnum og hentistefnu í stað þess að leita eftir upplýsingum um hana hjá þeim meðmælendum sem hún benti á.

Það er álit umboðsmanns að annmarkar hafi verið á málsmeðferð ríkisstofnunarinnar. Hlutaðeigandi stjórnvald hafi ekki fylgt tilteknum ákvæðum stjórnsýslulaga og upplýsingalaga við meðferð á máli umsækjandans.

Það haggar hins vegar ekki, að mati umboðsmanns, gildi ráðninganna og þar með telur umboðsmaður ekki tilefni til þess að beina tilmælum til ríkisstofnunarinnar um að taka málið til meðferðar að nýju. Eina úrræði umboðsmanns er því að beina tilmælum til stjórnvaldsins um að fylgja betur umræddum lagareglum framvegis.

„Ég fæ því iðulega þá spurningu frá þeim sem í hlut á hvort stjórnvaldið sé þá laust allra mála og það skipti í raun engu máli þótt það hafi ekki fylgt lögum við meðferð á máli hans. Ég get að vísu bent viðkomandi á að hann geti leitað til dómstóla og sett fram kröfu um bætur. Raunin er hins vegar sú að í fæstum tilvikum, sérstaklega þegar umsækjendur um opinber störf eiga í hlut, getur viðkomandi sýnt fram á fjárhagslegt tjón vegna þeirra annmarka sem voru á meðferð stjórnvaldsins á máli hans. Lagagrundvöllur fyrir miskabótum er sjaldnast fyrir hendi,“ segir í áliti umboðsmanns.

Umboðsmaður segist hafa valið að geta þessara sjónarmiða þegar hann lýkur umfjöllun um þetta tiltekna mál. Þá rifjar umboðsmaður upp að hann hefur áður hreyft því að ástæða kunni að vera til þess að Alþingi setji í lög ákvæði um viðurlög gagnvart stjórnvöldum, t.d. um bótagreiðslur, þegar þau fylgja ekki réttum málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins við úrlausn á málum borgaranna.

Slíkt væri einnig liður í því að auka aðhald með því að stjórnsýslan fylgi þeim lögum sem Alþingi hefur sett um störf hennar.

Heimasíða umboðsmanns Alþingis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka