Vefurinn timarit.is fær veglega andlitslyftingu á morgun, 1. desember, útlit og viðmót verður uppfært, auk þess sem aðgengi að blöðum og tímaritum verður aukið umtalsvert. Meðal annars hafa verið gerðir nýir samningar við Morgunblaðið og Fréttablaðið og munu nú allir árgangar þessara blaða verða aðgengilegir á vefnum utan þriggja síðustu árganga Morgunblaðsins.
Að sögn Áka G. Karlssonar, vefstjóra Landsbókasafns – Háskólabóksafns, er stærsta breytingin sú að hér eftir verður allt efni í pdf-formi en það forrit fylgir öllum nýjum tölvum í dag og því þarf ekki að setja það upp sérstaklega eins og fyrra forritið, DjVu. „Önnur helsta breytingin er sú að nú verður hægt að leita í öllum blöðum sem vefurinn hefur að geyma í einu en hingað til hefur leitin verið bundin við ákveðna titla. Í þessu felst mikið hagræði fyrir notendur,“ segir Áki en nýja forritið merkir við viðkomandi leitarorð í textanum. Áður þurfti að fara yfir textann í heild sinni til að finna orðið.
Að sögn Áka er eini fyrirvarinn sá að ljóslesturinn á efninu, einkum því elsta, er ekki fullkominn.
Enn önnur breyting verður viðbót hágæðaútgáfna af tímaritunum. Um er að ræða myndir í mun hærri gæðum en áður hafa verið í boði sem í senn gerir það mun auðveldara að lesa smátt letur og það sem hefur dofnað með árunum og gerir útprentanir mun eðlilegri, að sögn Kristins Sigurðssonar, fagstjóra upplýsingatæknihóps Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.