Íbúar smáhýsa á Granda sem beðið höfðu með eftirvæntingu eftir nýju heimili lentu í miklum hremmingum fyrstu vikuna sem þeir bjuggu í húsunum. Annað utangarðsfólk sótti að þeim og einn íbúinn var laminn til óbóta með kúbeini og reynt var að kveikja í.
Einar Guðmundsson og Sigrún Ólafsdóttir sem búa í einu smáhýsinu segjast núna ekki opna dyrnar nema vita hver standi fyrir utan. Húsin standi afskekkt og annað heimilislaust fólk vilji gjarnan sækja þangað í hlýjuna ekki síst þegar kalt er í veðri. Þau segjast stefna að því að byggja sig upp og hafa sótt um að komast í áfengismeðferð á Hlaðgerðarkot. Alls eru smáhýsin fjögur talsins, þar búa ein hjón og tveir einstaklingar en fjórða húsið stendur enn autt.
Á þeim tæpu fimm vikum sem liðnar eru frá því íbúarnir sem koma úr röðum heimilislausra fluttu inn, hefur verið komið upp eftirlitskerfi á svæðinu og íbúarnir fá nú mestmegnis að vera í friði. Jórunn Frímannsdóttir formaður Velferðarráðs segist ánægð með reynsluna af þessu starfi þrátt fyrir erfiðleika í byrjun. Tekin verði ákvörðun eftir ár um hvort fleiri slík hús verði reist í borginni.