Settur ríkislögreglustjóri hefur ákært Jón Ásgeir Jóhannesson, Tryggva Jónsson, Krístínu Jóhannesdóttur, Baug Group og fjárfestingafélagið Gaumi fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum á árunum 1998 til 2003.
Jón Ásgeir og Kristín eru ásamt foreldum sínum eigendur Gaums sem er aðaleigandi Baugs Group.
„Ég get staðfest það, að það er verið að ákæra í þriðja sinn í Baugsmálinu. Þetta er þriðji ákærandinn sem gefur út ákæru. Þeir tveir fyrri voru Jón H. Snorrason og Sigurður Tómas Magnússon," sagði Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs, við Morgunblaðið.
„Þetta mál varðar skattahluta rannsóknarinnar sem hófst með húsleit í ágúst 2002. Það er búið að ljúka þessum málum hjá skattayfirvöldum. Ef að ákærendur í málinu hefðu einhvern áhuga á því að taka mark á niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í gær, í máli Jóns Ólafssonar, þar sem meintum skattalagabrotum var vísað frá dómi, þá hefði ákæran aldrei verið lögð fram. Frávísun var á þeim grundvelli að ákærðu hefðu verið búnir ljúka sínum málum hjá yfirskattanefnd sem er nákvæmlega sama og er upp á teningnum í okkar máli. Auk þess er það meginreglan í íslenskum rétti að gefa aðeins út ákæru einu sinni í sama máli. Hæstiréttur hefur gagnrýnt langan málsmeðferðartíma í dómum sínum í þessu máli. Nú eru hins vega á sjöunda ár síðan málið hófst og ákæra er gefin út."
Rúnar Guðjónsson, sýslumaður í Reykjavík, er settur ríkislögreglustjóri í málinu og skrifar undir ákæruna ásamt Helga Magnúsi Gunnarssyni, saksóknara efnahagsbrota.
1. Á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni vegna eigin skattaskila fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum með því að vantelja tekjur sínar og þannig komið sér hjá skattgreiðslum.E r hann talinn hafa komið sér undan greiðslu tekjuskatts, útsvars og sérstaks tekjuskatts á árunum 1999-2003 að fjárhæð 14,9 milljónir króna og greiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð um 15 milljónir króna. Samtals er því um að ræða fjárhæð að upphæð 29,9 milljónir króna
2. Á hendur Tryggva Jónssyni vegna eigin skattaskila fyrir meirháttar brot gegn skattalögum á árunum 1999 til 2003 með því að vantelja tekjur sínar og hafa þannig komi sér undan greiðslu tekjuskatts, útsvars og sérstaks tekjuskatts að fjárhæð um 13,3 milljónum króna.
3. Brot framin í rekstri Baugs. Á hendur Jóni Ásgeiri sem framkvæmdastjóra Baugs Group frá 2. júlí 1998 til 30. maí 2002 og Tryggva sem framkvæmdastjóra Baugs Group frá 30. maí 2002 og Baugi Group fyrir meiriháttar brot gegn skattalagabrotum. Vangoldin staðgreiðsla opinbera gjalda vegna brota Jóns Ásgeirs og Baugs er sögð um 10,6 milljónir króna. Vangoldin staðgreiðsla opinbera gjalda Tryggva og Baugs Group er sögð um 3,2 milljónir króna.
4. Brot framin í rekstri fjárfestingafélagsins Gaums. Á hendur Jóni Ásgeiri og Krístinu fyrir meiriháttar skattalagabrot vegna starfa þeirra sem stjórnarmenn og starfandi framkvæmdastjórar hjá félaginu. Undir þessum lið er Jóni Ásgeiri gefið að hafa vantalið laun og ekki greitt staðgreislu opinberra gjalda að upphæð um 398 þúsund krónur. Kristínu og Gaumi er gefið að hafa vantalið laun og ekki greitt staðgreiðslu opinbera gjalda að upphæð um 27,5 milljónir króna. Krístinu og Gaum er einnig gefið að hafa vantalið tekjur af söluhagnaði af viðskiptum Gaums með hlutabréf í Baugi um 916 milljónir króna og oftelja gjöld í bókhaldi og skattframtali að upphæð 15,7 milljónir króna.
5. Brot framin í rekstri Gaums ehf. á hendur Jóni Ásgeiri og Kristínu sem starfandi framkvæmdastjórum og stjórnarmönnum Gaums fyrir meiriháttar skattalagabrot fyrir að hafa vantalið skattskyldar tekjur Gaums um 668,5 milljónir króna og þannig komið Gaumi undan greiðslu tekjuskatts að fjárhæð um 200,5 milljónum króna. Um var að ræða söluhagnað vegna ýmissa viðskipta.