Bíll, sem tilkynnt var að hefði verið stolið úr Hafnarfirði, fannst á Akranesi í nótt. Ökumaðurinn var handtekinn og fluttur til Reykjavíkur.
Tilkynnt var um þjófnaðinn á bílnum á vef 4x4 í gærdag, að sögn lögreglu, og sá sem hafði samband við lögreglu hafði séð þá tilkynningu. Um var að ræða glöggan vegfaranda því á ferðalagi sínu sá hann bílinn hverfa ofan í Hvalfjarðargöngin og tilkynnti lögreglu að bíllinn væri á þeim slóðum.
Lögregla á Akranesi hafði svo uppi á bílnum og ökumanni hans í nótt. Ökumaðurinn var grunaður um akstur undir áhrifum ávanafíkniefna. Hann var fluttur til Reykjavíkur.