Enn á ný fyrir dóm

Úr réttarhöldum í Baugsmálinu
Úr réttarhöldum í Baugsmálinu Morgunblaðið/ÞÖK

Ríkissaksóknari vildi að ákvörðun um ákæru í skattahluta Baugsmálsins lægi fyrir hinn 15. desember ella yrði málið látið niður falla. „Hann setti okkur þau tímamörk að það lægi fyrir hvert málið stefndi fyrir 15. desember,“ segir Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, sem fór aðeins fram úr frestinum því ákærur voru birtar á fimmtudaginn sl.

Vilja fá fellda niður rannsókn

Í gærmorgun var fyrirtaka í þremur málum sem sakborningar í skattahluta Baugsmálsins, Jón Ásgeir Jóhannesson, Kristín Jóhannesdóttir og Stefán Hilmar Hilmarsson, höfðuðu gegn ríkinu til þess að fá niður fellda rannsókn á meintum skattalagabrotum á hendur sér. Jafnframt var gerð krafa um að Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, viki sæti sökum vanhæfis. Munnlegur málflutningur verður hinn 8. og 12. janúar nk. og þá verður tekist um þá kröfu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Kristínar Jóhannesdóttur að rannsókn málsins verði dæmd ólögmæt og kröfu ákæruvaldsins um frávísun. Mál gegn Stefáni Hilmari Hilmarssyni var fellt niður í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Vilja fá úrlausn sinnar kröfu

Ákæran í skattamálinu var birt sakborningum á fimmtudaginn. Meðal þess sem verður tekist á um í janúar er hvort birting ákærunnar geti réttlætt frávísun málsins en Jón Ásgeir og Kristín vilja fá úrlausn sinnar kröfu. Lögmenn þeirra telja að það sé ekki hægt að taka þau réttindi frá þeim og eftir atvikum bera undir æðri dómstól það álitaefni hvort halda megi rannsókn málsins áfram, eftir allan þennan tíma.

Lögmenn sakborninganna eru einnig óhressir með að ákæran skyldi vera birt eftir að niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur, um að vísa frá ákæru á hendur Jóni Ólafssyni og fleirum vegna skattalagabrota, lá fyrir en þeir vilja meina að sú niðurstaða feli hugsanlega í sér réttaróvissu og því hefði verið æskilegra að Hæstiréttur kæmist að sinni niðurstöðu í því máli fyrir birtingu ákæru. „Ef niðurstaða héraðsdóms í máli Jóns Ólafssonar er rétt er þetta mál úti í hafsauga. Eina eðlilega niðurstaðan hefði verið að bíða eftir niðurstöðu Hæstaréttar,“ segir Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Frávísun í máli Jóns Ólafssonar o.fl. var meðal annars reist á þeim forsendum að verið væri að höfða refsimál vegna háttsemi sem þegar hefði verið refsað fyrir og að sakborningar sættu endurtekinni opinberri rannsókn vegna sömu sakarefna. Niðurstaðan var m.a. byggð á að á grundvelli mannréttindasáttamála Evrópu yrði ekki hægt að refsa sakborningi tvisvar fyrir sömu háttsemina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka