Það má teljast nokkuð borin von að jólin verði hvít að þessu sinni samkvæmt upplýsingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Gera má ráð fyrir rigningu og hvassviðri næstu daga og hlýindum a.m.k. fram í miðja næstu viku.
Björn Sævar Einarsson veðurfræðingur segir að búast megi við slagviðri og úrhellisrigningu á suðvestanverðu landinu í nótt og áfram hvassri suðvestanátt á morgun. Eitthvað mun draga úr vindi er líður á daginn en þó má gera ráð fyrir strekkingi fram á aðra nótt. Á jóladag er spáð hvassri suðvestanátt norðvestan til á landinu en annars hægari. Él um vestanvert landið en annars staðar léttskýjað.
Á jóladagskvöld ætti vindur að hafa gengið niður og má þá fyrst gera ráð fyrir ágætisveðri á vestanverðu landinu. Mun hægara og bjartara verður um austanvert landið um allar hátíðarnar.
Á laugardag má síðan gera ráð fyrir að rigni og hvessi að nýju.