Enginn sótti um embætti sérstaks saksóknara

Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur framlengt til 12. janúar umsóknarfrest um embætti sérstaks saksóknara. Dóms- og kirkjumálaráðherra skipar í embættið frá og með 1. febrúar 2009, eða svo fljótt sem verða má.  Fyrri umsóknarfresti lauk 29. desember og sótti enginn um starfið.

Er saksóknaranum ætlað að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og kjölfar atburða er leiddu til setningar laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði og þess ástands sem þá skapaðist á fjármálamarkaði, hvort sem það tengist starfsemi fjármálafyrirtækja, annarra lögaðila eða einstaklinga, og eftir atvikum fylgja rannsókn eftir með saksókn.

Rannsóknar- og ákæruheimildir embættisins taka meðal annars til efnahags-, auðgunar- og skattabrota, þar með talið brota sem rannsökuð hafa verið af Fjármálaeftirlitinu, Samkeppniseftirlitinu og skattrannsóknarstjóra ríkisins og vísað hefur verið til lögreglu.

Hinn sérstaki saksóknari hefur eftir þörfum samstarf við Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið og skattrannsóknarstjóra ríkisins og aðrar réttarvörslu- og eftirlitsstofnanir. Sé þess óskað skulu þessar stofnanir veita hinum sérstaka saksóknara upplýsingar um stöðu annarra mála.

Lög um embætti sérstaks saksóknara



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert