Framsókn vill sækja um ESB-aðild með skilyrðum

Fjölmenni er á flokksþingi Framsóknarflokksins, sem fer fram í Vodafonehöllinni …
Fjölmenni er á flokksþingi Framsóknarflokksins, sem fer fram í Vodafonehöllinni í Reykjavík. mbl.is/Golli

Álykt­un um að Ísland eigi að hefja aðild­ar­viðræður við Evr­ópu­sam­bandið á var samþykkt með mikl­um meiri­hluta at­kvæða á flokksþingi Fram­sókn­ar­flokks­ins í dag. Áður hafði verið hafnað til­lögu um að flokksþingið legg­ist ein­dregið gegn öll­um hug­mynd­um um að Ísland gangi í Evr­ópu­sam­bandið. 

„Við höf­um stigið stórt skref, fram­sókn­ar­menn, með samþykkt þess­ar­ar til­lögu," sagði Sig­fús Karls­son, fund­ar­stjóri þegar búið var að af­greiða álykt­un­ina. Umræður um Evr­ópu­mál­in stóðu í fjór­ar klukku­stund­ir á flokksþing­inu og yfir 40 manns tóku til máls.

Í álykt­un­inni seg­ir að hefja eigi aðild­ar­viðræður á grund­velli samn­ings­um­boðs frá Alþingi sem tryggi hags­muni al­menn­ings og at­vinnu­lífs og þá sér­stak­lega sjáv­ar­út­vegs og land­búnaðar. Þá sé full­veldi og óskorað for­ræði Íslend­inga yfir auðlind­um þjóðar­inn­ar grund­vall­ar­krafa í þeim viðræðum.

Tekið er fram, að viðræðuferlið eigi að vera opið og lýðræðis­legt og leiði viðræðurn­ar til samn­ings skuli ís­lenska þjóðin taka af­stöðu til aðild­ar­samn­ings í þjóðar­at­kvæðagreiðslu í kjöl­far upp­lýstr­ar umræðu.

Í upp­haf­legri til­lögu voru skil­greind­ar þær leiðir, sem flokk­ur­inn vill fara í aðild­ar­viðræðum en á flokksþing­inu var samþykkt að breyta orðinu leiðir í skil­yrði. Sam­kvæmt því set­ur Fram­sókn­ar­ar­flokk­ur­inn það skil­yrði, að staðfest verði að Íslend­ing­ar ein­ir hafi veiðirétt inn­an ís­lenskr­ar fisk­veiðilög­sögu og að fisk­veiðistjórn­un verði áfram inn­an­rík­is­mál Íslend­inga, enda styðjist hún við regl­ur ESB um stöðug hlut­föll, ná­lægðarreglu og Lúx­em­borg­ar­sam­komu­lagið. Þá veðri Ísland sjálf­stæður aðili að samn­ing­um um flökku­stofna.

Einnig verði fæðuör­yggi þjóðar­inn­ar tryggt og viður­kennd nauðsyn á sér­stök­um ákvæðum vegna fá­menn­is þjóðar­inn­ar. Viður­kennt verði að ís­lensk­ur land­búnaður sé heim­skautaland­búnaður. Þá verði fram­leiðsla og úr­vinnsla ís­lenskra land­búnaðar­af­urða tryggð ásamt sér­stöðu og hrein­leika ís­lenskra land­búnaðar­stofna.

Þá set­ur flokk­ur­inn það skil­yrði, að í upp­hafi viðræðna verði gerður stöðug­leika­samn­ing­ur við Evr­ópska seðlabank­ann sem tryggi stöðugt gengi ís­lensku krón­unn­ar þar til Íslend­ing­ar taka upp evru. Tekið verði til­lit til stöðu ís­lensks efna­hags­lífs við umbreyt­ingu pen­inga- og gjald­eyr­is­mála á Íslandi.

Loks er sett það skil­yrði að ákvæði verði um varðstöðu um ís­lenska þjóðmenn­ingu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viður­kennt sem eitt hinna op­in­beru tungu­mála ESB. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka