Samfylkingin kynnir fundaröð og þing

Frá blaðamannafundi Samfylkingarinnar í dag
Frá blaðamannafundi Samfylkingarinnar í dag mbl.is/Árni Sæberg

Samfylkingin ætlar að efna til opinna funda um land allt á næstu vikum um Evrópumálin og þau meginsvið sem samið yrði um í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Jafnframt efnir Samfylkingin til Framtíðarþings eftir viku þar sem leitað verður lausna á brýnustu verkefnum í stjórnmálum samtímans.  

Engin ákvörðun tekin um kosningar

Þetta kom fram á blaðamannafundi hjá Samfylkingunni í dag. Þar kom fram í máli Ágústs Ólafar Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, að Samfylkingin fagnaði ályktun Framsóknarflokksins frá því í gær að stefna ætti að aðildarviðræðum við Evrópusambandið. 

Aðspurður um hvort Samfylkingin sé á leið í kosningabaráttu sagði Ágúst Ólafur að flokkurinn sé alltaf í kosningabaráttu. Hann segir að ekki sé búið að taka neina ákvörðun um að fara út í kosningar á næstunni og að flokkurinn starfi af fullum heilindum í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.  

Aðild að ESB getur verið til bóta fyrir landbúnaðinn

Árni Páll Árnason, þingmaður, segir nauðsynlegt að fara í viðræður við Evrópusambandið á næstu mánuðum. Hann segir að Samfylkingin telji að aðild geti verið til mikilla bóta fyrir landbúnaðinn og stutt við hann í framtíðinni. 

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, segir að ákvörðun um Evrópustefnu sé pólitísk ákvörðun en ekki hagsmunamat nema að litlu leyti. Hún segir að mikilvægt sé að hafa í huga að landbúnaðarstefna ESB sé byggðastefna sem geti hugnast hinum dreifðari byggðum á Íslandi.

Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna, segir að ungliðar vilji leggja sérstaka áherslu á mannréttindamál, femínisma, þróunarmál og umhverfismál í Evrópuumræðunni. 

Verulegar umbætur í vændum fyrir heimilin

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, segir að endurskoða þurfi lög um ráðherraábyrgð og siðferði á Íslandi. Þetta sé meðal þess sem verði rætt á Framtíðarþingi næsta laugardag. Eins þurfi að finna út hvernig hægt er að virkja þann mannauð sem býr í konum en þær hafi alls ekki verið nægjanlega áberandi í til að mynda fjármálalífinu. Skoða þurfi fjármálakerfið og hvernig kerfi jafnaðarmenn vilja sjá í framtíðinni. Eins bankana þrjá sem nú eru í eigu ríkisins.

Jafnframt þarf að marka stefnu í hvernig eigi að koma á móts við atvinnulífið.  Tímabært sé að taka ákvarðanir um hvernig fasteignalánamarkaðurinn verði í framtíðinni og hvaða leiðir viljum við sjá í skattamálum, segir Jóhanna.

Hún segir að í þessum mánuði muni sjást verulegar umbætur fyrir heimilin í landinu á vegum stjórnvalda. Til að mynda verði frumvarp um skuldaaðlögun tekið fyrir þegar þing kemur saman að nýju eftir jólaleyfi. Eins er verið að skoða hvort fólk fær að nýta séreignasparnað sinn strax eða ekki en niðurstaða í því máli liggi ekki fyrir.

Hægt að saka okkur um að vera svifasvein

Nú rúmum eitt hundrað dögum frá setningu neyðarlaganna segir Þórunn  að auðvitað hafi verið gerð mistök hjá ríkisstjórninni en margt hafi verið vel gert.

„En það má saka okkur í ríkisstjórninni um að hafa verið svifasvein. Við hefðum getað unnið hraðar en það hafa allir reynt að bjarga öllu sem bjargað varð...og það er vandfundin sú ríkisstjórn á vesturlöndum sem hefur þurft að glíma við annað eins ástand."

Á fundum Samfylkingarinnar um Evrópumál munu fræðimenn, innlendir og erlendir sérfræðingar í Evrópumálum taka til máls. Auk stjórnmálamanna og hagsmunaaðila. Meðal þátttakenda verða Michael Köhler, forstöðumaður á skrifstofu sjávarútvegsmála innan ESB, Pekk Pesonen, framkvæmdastjóri evrópsku bændasamtakanna, Alyson Bailes, gestaprófessor, Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtakanna, Elvira Mendez Piledo, lektor við lagadeild HÍ.

Engar nýjar fréttir af heilsu utanríkisráðherra

Skúli Helgason, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, segir að það sé ekkert nýtt að frétta af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, en læknar úti í Svíþjóð hafi viljað setja hana í frekari rannsóknir. Væntanlega verði eitthvað meira að frétta af heilsu hennar í næstu viku en engin niðurstaða sé komin úr þeim rannsóknum sem Ingibjörg Sólrún fór í.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka