Milljarðalán án áhættu

Höfuðstöðvar Kaupþings við Borgartún.
Höfuðstöðvar Kaupþings við Borgartún. mbl.is/Golli

Útvaldir viðskiptavinir Kaupþings, þar á meðal Ólafur Ólafsson, annar stærsti eigandi bankans, fengu milljarða króna að láni til að gera samninga sem þeir gátu ekki tapað á.

Kaupþing hafði lánað um 84 milljarða króna vegna þessara samninga til erlendra félaga sem voru í eigu viðskiptavinanna vikurnar áður en bankinn féll. Áhættan í viðskiptunum lá öll hjá Kaupþingi og hluthöfum bankans en ekki hjá fjárfestunum sjálfum. Þeir áttu hins vegar von á miklum fjárhagslegum ávinningi, allt að tíu milljörðum króna.

Samningarnir voru gerðir með það að markmiði að styrkja fjárhag eigenda þessara félaga. Til stóð að greiða út hluta af reiknuðum hagnaði samninganna fyrirfram. Það náðist ekki.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru þessar lánveitingar ekki samþykktar í lánanefnd bankans áður en þær voru afgreiddar. Það sama er að segja um fjármögnun Kaupþings á kaupum sjeiksins Al-Thani á 5% í bankanum.

Þar sem áhættan í þessum lánveitingum var stór þurfti lánanefnd stjórnar Kaupþings að samþykkja þær. Sú nefnd var kölluð saman vikuna áður en neyðarlögin voru samþykkt og bankarnir féllu. Þar var listi af óafgreiddum lánum lagður fram og hann samþykktur til að ganga frá formsatriðum.  Þar á meðal voru lán vegna ofangreindra samninga. Lánin voru því veitt án formlegs samþykkis.

Í lánanefnd stjórnar á þessum tíma sátu Sigurður Einarsson, stjórnarformaður, Bjarnfreður Ólafsson og Gunnar Páll Pálsson ásamt Hreiðari Má Sigurðssyni forstjóra.

Greiðslur Kaupþings til erlendra félaga tiltekinna viðskiptavina síðustu vikurnar fyrir fall námu um 120 milljörðum króna. Á sama tíma hrikti í stoðum fjármálafyrirtækja í heiminum. 

Auk hárra lána til viðskiptavina ákváðu stjórnendur Kaupþings að kaupa skuldabréf bankans á markaði fyrir 180 milljónir evra. Að teknu tilliti til þess fóru um 140 milljarðar króna út úr bankanum á nokkrum vikum. Á sama tíma var umhverfi fjármálafyrirtækja í heiminum mjög fallvalt og allt lausafé dýrmætt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka