Mótmæla aftur í dag

Í allt gærkvöld dreif fólk að Alþingishúsinu þar sem mótmælum var haldið áfram til klukkan að ganga fjögur í nótt. Allt lauslegt brann glatt á heljarmiklu báli á gangstéttinni fyrir framan aðaldyrnar og púðurkerlingar sprungu.

Trymblarnir sem höfðu margir hverjir varla tekið sér hvíld allan daginn héldu áfram að slá taktinn og fólk kyrjaði, vanhæf ríkisstjórn.  Bak við skildi, ataða skyri, hímdi óeirðalögreglan.

Þingmenn VG blönduðu sér í hópinn utan við þinghúsið á ellefta tímanum og spjölluðu við mótmælendur. Steingrímur J. Sigfússon formaður VG segist velta fyrir sér hvers konar jarðsamband ríkisstjórnin að ætla að sitja áfram og neita að boða til kosninga þrátt fyrir ólguna í þjóðfélaginu.

Jólatréð á Austurvelli fór á bálið um miðnætti og endaði þar sína ævidaga. Fyrr um kvöldið hafði ítrekað verið reynt að kveikja í trénu.

Mótmælin stóðu langt fram á nótt en eftir að leið á nóttina beitti lögreglan gasi til að tvístra hópnum og fjórir voru handteknir og færðir í fangageymslur. Mótmælendur boða frekari aðgerðir þegar Alþingi kemur saman eftir hádegið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka