Samþykktu ályktun um stjórnarslit

Frá fundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld.
Frá fundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld. mbl.is/Kristinn

Fjölmennur félagsfundur Samfylkingarfélags Reykjavíkur samþykkti rétt í þessu samhljóða - með dynjandi lófataki - ályktun þess efnis að skora á þingflokk Samfylkingarinnar að beita sér fyrir því að ríkisstjórnarsamstarfinu verði umsvifalaust slitið, og mynduð verði stjórn sem starfi fram að kosningum sem fram fari eigi síðar en í maí 2009.

Fundinum er nú lokið en stefnt er að því að lesa upp ályktunina á tröppum Þjóðleikhússins.

Mikil fagnaðarlæti brutust út meðal mótmælenda þegar þeir fréttu að ákveðið hafi verið að samþykkja ríkisstjórnarslit. Slagorðið „Vanhæf ríkisstjórn!“ breyttist þá í „Áfram Ísland!“.

Óhætt er að segja að Hverfisgata, fyrir framan Þjóðleikhúsið og Þjóðmenningarhúsið, sé troðfull af fólki, sem framkallar gríðarlegan hávaða.

Ekki hefur komið til neinna átaka. Lögreglan er með mikið lið á svæðinu, en hefur hingað til aðeins fylgst með.

Ályktunin í heild sinni hljóðar svo: „Mikil ólga og reiði er í samfélaginu og krafan um kosningar er hávær. Samfylkingin sem lýðræðislegur stjórnmálaflokkur má ekki skella skollaeyrum við eðlilegum körfum þjóðarinnar um virkt lýðræði. Með kosningum verður þjóðin þátttakendi í þeirri uppbyggingu sem framundan er.

Félagsfundur í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík skorar á þingflokk Samfylkingarinnar að beita sér fyrir því að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks verði slitið strax og mynduð verði ný stjórn fram að kosningum sem fram fari eigi síðar en í maí 2009.

Traust almennings verður einungis endurvakið með kosningum.

Samþykkt á félagsfundi í Þjóðleikhúskjallaranum miðvikudaginn 21. janúar 2009. “ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka