Fólk hefur nú safnast saman framan við Stjórnarráðið. Að sögn blaðamanns mbl.is eru þar nú milli 2-300 manns og láta ófriðlega. Var m.a. rauðri málningu úðað á húsið og umferðarskilti fyrir framan brotið niður. Lögreglan fylgist grannt með. Þá er einnig nokkur hópur framan við þinghúsið og þar stendur lögreglan vörð í tvöfaldri röð.
Lögreglan hefur á ný aukið við mannafla á staðnum og mótmælendur voru rétt í þessu að taka sér stöðu fyrir framan brynklædda lögreglumenn, þar sem fólk var beðið að hætta að kasta grjóti. Lögreglan er ekki með gasgrímur og bendir það til þess að ekki standi til að beita táragasi.