Munu hafa uppi á ofbeldismönnum

Lögregla dreifir hópnum framan við Stjórnarráðið.
Lögregla dreifir hópnum framan við Stjórnarráðið. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að ofbeldinu sem lögregla var beitt á aðfaranótt fimmtudags verði fylgt eftir af mikilli hörku. „Þú getur rétt ímyndað þér það. Þarna er um að ræða alvarlegt brot á hegningarlögum, þetta eru árás á lögreglumenn að störfum og ofbeldisbrot sem þarna eru framinn. Að sjálfsögðu munum við setja mikinn kraft í það að upplýsa þessi mál, því við eigum mikið af myndefni.“

Öryggismyndavélar við Stjórnarráðið og Þinghúsið festu á filmu þegar óeirðaseggir köstuðu gagnstéttarhellum, glerflöskum og öðru að lögreglu. Þá ógnuðu einhverjir lögreglu með hnífum og hnúajárnum. Sjö lögreglumenn þurftu aðhlynningu á slysadeild og þar af missti einn meðvitund eftir að þungri gangstéttarhellu var kastað í höfuð hans. Enginn var handtekinn þá um nóttina, en Stefán segir að ekki sé nokkurt hik á lögreglu að fylgja því eftir af fullri einurð að hafa uppi á sökudólgunum.

Stefán segir það alveg ljóst að stigbreyting hafi orðið á mótmælunum þessa nótt. Þarna hafi farið fremstir í flokki margir góðkunningja lögreglu sem komið hafa við sögu í fíkniefnamálum, innbrotum og þjófnaði. „Það er alveg augljóst að það eru aðrar hvatir sem liggja þarna að baki og við skynjum það alveg skýrt. Þarna var hópur ofbeldisseggja sem í raun og veru tók yfir mótmælin og notaði þetta tækifæri til að finna reiði sinni og gremju í garð lögreglu farveg. Það má heldur ekki gleyma því að í hópi mótmælenda var fólk sem var löngu búið að ofbjóða þessi framganga ofbeldisseggjanna og kom lögreglunni til stuðnings með því að standa með þeim og ganga síðan um á meðal hópsins sem kastaði grjóti og hvetja menn itl að láta af þessu.“

„Ég held að það væri bara einfaldast fyrir það fólk sem þarna var á ferðinni og kastaði grjóti í lögreglu að það gæfi sig fram nú þegar áður en við finnum það í gegnum okkar kerfi,“ segir Stefán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka