Táragasi beitt á Austurvelli

Gasmökkinn lagði yfir Austurvöll.
Gasmökkinn lagði yfir Austurvöll. mbl.is/Júlíus

Táragasi var skotið á mótmælendur á Austurvelli nú um klukkan hálf eitt en það mun vera í fyrsta skipti frá árinu 1949 sem slíku gasi er beitt hér á landi. Hvítan reyk lagði yfir Austurvöll þegar gashylkjunum var skotið flúðu mótmælendur af svæðinu en lögreglumenn voru allir búnir gasgrímum.

Þegar gasreykurinn dreifðist fór fólk á ný inn á Austurvöll og hóf að grýta múrsteinum og öðru lauslegu í lögreglumenn. Lögreglan skaut þá táragashylkjum að nýju að fólkinu sem flúði af hólmi. Samkvæmt upplýsingum mbl.is eru tveir lögreglumenn alvarlega slasaðir eftir að gangstéttarhellum var kastað í  þá.

Nokkur hundruð manna söfnuðust saman á Austurvelli undir miðnættið í kvöld og fljótlega brutust út átök milli mótmælenda og lögreglu. Lögreglumenn beittu kylfum og síðan piparúða til að dreifa fólkinu en greip síðan til táragass eftir að hafa varað mannfjöldann við gegnum gjallarhorn. Samkvæmt upplýsingum mbl.is var skotið um tíu gassprengjum að mótmælendum. 

Fólk hefur nú safnast saman framan við Stjórnarráðið. Að sögn blaðamanns mbl.is eru þar nú milli 2-300 manns og láta ófriðlega. Var m.a. rauðri málningu úðað á húsið og umferðarskilti fyrir framan brotið niður. Lögreglan fylgist grannt með. Þá er einnig nokkur hópur framan við þinghúsið og þar stendur lögreglan vörð í tvöfaldri röð.

Lögreglumenn með gasgrímur og táragasbyssur á Austurvelli.
Lögreglumenn með gasgrímur og táragasbyssur á Austurvelli. mbl.is/Golli
Hvítan gasreyk lagði yfir Austurvöll.
Hvítan gasreyk lagði yfir Austurvöll. mbl.is/Júlíus
Mannfjöldinn lagði á flótta undan táragasinu.
Mannfjöldinn lagði á flótta undan táragasinu. mbl.is/Golli
Lögreglan beitti piparúða gegn mótmælendum fyrr í kvöld en síðan …
Lögreglan beitti piparúða gegn mótmælendum fyrr í kvöld en síðan táragasi til að dreifa mannfjöldanum. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka