Grátrönurnar eru alveg út úr kortinu

Grátrönur.
Grátrönur. mynd/Þórir N. Kjartansson

„Þetta er bara alveg út úr kortinu,“ segir Brynjúlfur Brynjólfsson fuglaáhugamaður um veru þriggja grátrana sem sést hafa í Álftaveri undanfarna daga. Þetta er í fyrsta sinn sem fuglar af þessari tegund hrekjast hingað til lands á þessum árstíma.

Frá árinu 1968 hafa sést á landinu um 40 slíkir fuglar, sá fyrsti á Seyðisfirði árið 1968. Þeir koma oftast á tímabilinu frá byrjun mars fram í miðjan nóvember. Núna sáust þessir fuglar við Hraungerði í Álftaveri í Vestur-Skaftafellssýslu.

„Þær hafa aldrei sést hérna á þessum árstíma og það veit enginn hvaðan þær komu,“ segir Brynjúlfur. „Líklegast er að kuldar, eins og eru núna í Bretlandi, og sterkar suðvestanáttir hreki þær hingað,“ bætir hann svo við. Einnig hafa sést hér að undanförnu nepjur og gráþrestir.

Aðalheimkynni grátrana á vetrum séu í Afríku þó að þeim hafi fjölgað í Evrópu. Í bókinni Fuglar í Evrópu kemur fram að stofn grátrana í Evrópu sé 110.000 pör og þær verpi í norðurhluta álfunnar.

Flækingsfuglanefnd samþykkir þá flækinga sem sjást á landinu og að sögn Brynjólfs höfðu verið samþykktar 34 grátrönur til ársins 2003, frá því að skráning hófst. „Með þessum má þannig segja að rúmlega 40 fuglar hafi sést hér. Sá fyrsti fannst vorið 1968 á Seyðisfirði.“ Brynjúlfur segir ómögulegt að segja hvað verður um þessa fugla núna, hvort þeir lifi íslenska veturinn af eða komist af landi brott. Með hlýnandi veðri má búast við að flækingar eins og grátrönur venji komur sínar til landsins í auknum mæli og þær hafa smám saman verið að færa sig norðar. sia@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert