Reiður yfir að lenda í þessari stöðu

Lögreglumenn standa vörð um Alþingishúsið.
Lögreglumenn standa vörð um Alþingishúsið. mbl.is/Júlíus

„Þegar reykurinn er að hverfa horfi ég framan í tvo stráka sem eru svona 17-18 ára og ég lét kylfuna síga og sagði: „Farið þið, gerið það fyrir mig farið, ég vil ekki gera þetta,“ og þeir bökkuðu aðeins. Það hefur enginn gaman af þessu, að lenda saman við unglinga.“

Þannig lýsir lögreglumaður sem slasaðist í óeirðunum á miðvikudagskvöld, aðdragandanum að því að rúmlega þriggja kílóa gangstéttarhellu var kastað í öxl hans.

Sjálfur hefur hann ekki verið í götulögreglunni í nokkur ár en var kallaður til sem aukaliðsstyrkur þegar ljóst var í hvað stefndi. „Ég hef ekki notað gasgrímu síðan á æfingu í Lögregluskólanum og ég varð svo hissa þegar fólkið kom aftur eftir gasið, æddi alveg brjálað að okkur og ég hugsaði: Bíddu, virkar gasið ekki? Sjálfur hafði ég ekki skjöld svo það eina sem ég gat gert var að skýla mér á bak við fremstu menn. Það rigndi stanslaust yfir mann glerflöskum og grjóti og maður var bara að bíða eftir að gashylkinu yrði skotið og ég veit að þetta gerðist mjög hratt, en mér fannst óratími líða á meðan þetta stóð yfir.“

Voru tvímælalaust í lífshættu

„Ég fann allt í einu rosalegt högg og nístandi sársauka í öxlinni og komst að því seinna að ungur maður hefði tekið tilhlaup með grjótið og kastað því í mig. Adrenalínið var alveg á fullu og maður varð hissa og reiður en svo varð sársaukinn alltaf meiri og á leiðinni upp á slysadeild fannst mér að það væri að vaxa annað höfuð út úr öxlinni á mér, það blæddi svo mikið inn á liðinn.“

Hann segist í raun ekki hafa áttað sig á því fyrr en hann heyrði viðbrögð lækna að lögreglan hefði beinlínis verið í lífshættu. Til samanburðar bendir hann á að í Hringbrautarmálinu svokallaða lést maður með þríbrotna höfuðkúpu vegna höggs, eftir að hafa fengið í höfuðið slökkvitæki sem vó rúm þrjú kíló, líkt og gangstéttarhellurnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert