Íhuga aðgerðir á Grundartanga

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/SteinarH

„Ég er miklu meira en vonsvikinn og mér finnst það ábyrgðarhluti hjá atvinnurekendum að hlusta ekki á ríkissáttasemjara. Mér sýnist allt stefna í leiðindi eða aðgerðir,“ sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. Samtök atvinnulífsins höfnuðu í morgun innanhússtillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu hafnarstarfsmanna á Grundartanga atvinnurekenda.

Kjarasamningar um 30 starfsmanna Klafa, sem sjá um upp- og útskipanir á Grundartangasvæðinu, ásamt því að þjónusta eigendur sína sem eru Elkem Ísland og Norðurál, hafa verið lausir síðan 1. desember síðastliðinn.

Starfsmenn hafa krafist sambærilegra launahækkana og um samdist hjá Elkem Ísland í desember sl. en sú hækkun hljóðaði upp á 17-18% við undirskrift samningsins.

Hvorki hefur gengið né rekið og í morgun lagði ríkissáttasemjari fram innanhússtillögu til lausnar deilunni. Tillagan fól í sér grunnkaupshækkun á byrjunarlaunum upp á 10% frá 1. desember síðastliðnum en heildarhækkun við undirskrift samningsins fól í sér 13 til 15% hækkun, hefði tillagan náð fram að ganga.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness segir að samninganefnd starfsmanna hafi verið tilbúin að fallast á tillöguna. Samtök atvinnulífsins höfnuðu hins vegar tillögunni. Vilhjálmur segir að í boði hafi verið um það bil 3% hækkun grunnlauna við undirskrift og síðan hækkun 1. mars næstkomandi. Hins vegar hafi atvinnurekendur gefið út að þeir íhugi að segja upp samningum þannig að hækkanir í mars komi tæpast til.

„Við vorum tilbúnir að fallast á tillögu sáttasemjara og vinna henni brautargengi meðal okkar félaga, til þess að reyna að koma í veg fyrir að allt færi í bál og brand. Nú þarf ég að heyra í mínum félögum og vega það og meta hvað gert verður. Það er alls ekki ólíklegt að menn skoði einhverjar aðgerðir,“ sagði Vilhjálmur Birgisson, nýkominn af fundi hjá sáttasemjara.

Hann segir að það liggi fyrir að starfsmenn Klafa hafi setið eftir. Gengið hafi verið frá samningum fyrri nær alla hópa í þeirri samningahrinu sem lauk fyrir áramót. Það eigi við um almenna markaðinn, sveitarfélög og ríki.

„Og ég harma það að menn skuli ætla að afgreiða þennan hóp manna með öðrum hætti en þeir hafa gert við aðra hópa. Þetta er sá hópur sem fæðir og klæðir álverið og járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, ef svo má segja. Þó vissulega séu erfiðleikar í áliðnaði og víðar þá set ég ekki útflutningsfyrirtæki undir sama hatt og fyrirtæki á almennum vinnumarkaði. Norðurál er til dæmis skuldlaust fyrritæki þannig að ekki eru þeir að berjast við vaxtagreiðslur og annað, líkt og flest öll fyrirtæki á innanlandsmarkaði. Og ég segi það hvar og hvenær sem er að það á að vera krafa okkar gagnvart stóriðjufyrirtækjum, að við fáum sem mest út úr þeim. Það liggur alveg fyrir að umtalsverður hluti þess ávinnings sem verður til í þessum verksmiðjum, fer beint úr landi. Ætli það séu ekki um 60% sem hverfa úr landi. Einungis 40% verða hér eftir í formi launagreiðslna, raforkukaupa og annars,“ sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert