Miðað við að Icelandair ehf. afturkalli uppsagnir nítján flugmanna í maí og 18 í júní þá verða um 60 flugmenn áfram atvinnulausir í sumar, sem er háannatími þessarar atvinnugreinar. Þetta kemur fram á vef Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA). Samkvæmt áætlun Icelandair verða tíu þotur í áætlunarflugi í sumar, 5 þotur í fraktflugi, ein Boeing 757 og ein Boeing 767 í leiguflugi.
Þessi áætlun miðast því við einni færri þotu í áætlun og einni færri í leiguflugi miðað við fyrrasumar, að því er segir í fréttabréfi FÍA.
Samkvæmt samtali blaðs FÍA við Birki Hólm, forstjóra Icelandair ehf., þá ríkir þó almenn bjartsýni innan veggja félagsins þar sem árið lítur vel út tekjulega séð. Veruleg minnkun er á innlendum markaði en aukning á erlendum markaði auk hagstæðs gengis krónunnar, vega þar á móti.
Sagði Birkir að félagið væri í 25% niðurskurði í augnablikinu en fari í 5% niðurskurð í maí sem er umtalsverð aukning frá því sem nú er.
Varðandi leiguflug félagsins þá er búið að undirrita viljayfirlýsingu um verkefni fyrir Boeing 767 þotuna sem áætluð er í fyrrgreindum tölum en eftir er að finna verkefni fyrir 757 vélina.
Icelandair Group hefur ákveðið að flytja verkefni frá dótturfélagi sínu í Lettlandi, Smart- Lynx, hingað heim og láta íslenskar áhafnir njóta góðs af hjá Icelandair ehf. Um er að ræða flutning á tveimur Boeing 767 þotum yfir til Icelandair en búið er að undirrita viljayfirlýsingu um verkefni fyrir þær báðar sem mun vonandi hefjast innan skamms, að því er segir í fréttabréfi FÍA.
Loftleiðir ehf. hafa veg og vanda af öllu leiguflugi fyrir bæði Icelandair ehf. og SmartLynx og í samtali við Guðna Hreinsson, forstjóra Loftleiða ehf., þá var hann mjög bjartsýnn á að samningar tækjust á næstu dögum, komið væri samkomulag um meginatriði samningsins.
Varðandi flugmenn í uppsögn hjá Flugfélagi Íslands þá segir Einar Björnsson, flugrekstrarstjóri Flugfélags Íslands, full snemmt að segja til um hvernig þessu yrði háttað hjá félaginu, samkvæmt fréttabréfi FÍA.
Hann sagði að um þessar mundir væri verið að leggja lokahönd á sumaráætlun félagsins og að því loknu væri hægt að fara út í þá vinnu að reikna út áhafnaþörf sumarsins. Hann sagðist þó bjartsýnn þar sem að fram til dagsins í dag hafi ástandi ekki versnað umfram áætlanir hjá félaginu.