Ragnhildur Ágústsdóttir, forstjóri fjarskiptafélagsins Tals, segir í yfirlýsingu, að starfsfólk Tals stendur algjörlega fyrir utan þann ágreining, sem sé milli hluthafa í félaginu. Teymi á 51% hlut í Tali og Jóhann Óli Guðmundsson og fleiri 49%.
„Starfsfólk Tals hefur unnið að því í góðri trú að byggja upp fyrirtæki sem boðið geti hagstæðustu fjarskiptaþjónustu á markaðnum. Almenningur hefur tekið okkur fagnandi og viðskiptavinir Tals skipta nú þúsundum. Mér þykir miður að vörumerki Tals skuli hafa verið dregið inn í deilur eigenda félagsins og vona að þær verði útkljáðar sem fyrst. Deilurnar hafa hins vegar ekki áhrif á daglegan rekstur félagsins og viðskiptavinir okkar geta verið þess fullvissir að þær hafi ekki áhrif á viðskipti þeirra né viðskiptakjör.
Ég vil jafnframt árétta að ég lít svo á að frumskylda mín sé að tryggja rekstur félagsins og gæta hagsmuna Tals. Ég lýsi því yfir að ég mun rækja þær skyldur af bestu samvisku og tryggja að öllum leikreglum sé fylgt í hvívetna. Ég vil að lokum koma á framfæri þökkum til starfsfólks Tals, fyrir það mikla æðruleysi sem það hefur sýnt í þessum krefjandi aðstæðum," segir í yfirlýsingu Ragnheiðar.