Fundur í fulltrúaráði Samfylkingarinnar í Reykjavík samþykkti nú í kvöld að haldið verði prófkjör til þess að stilla upp á listum. Um verður að ræða rafræna kosningu sem á að vera lokið 14. mars nk.
Að sögn Þorbjarnar Guðmundssonar, formanns fulltrúaráðsins, verður prófkjörið opið fyrir þá sem skráð hafa sig í Samfylkinguna fyrir 28. febrúar nk.
Á fundinum var einnig samþykkt að frambjóðendur í prófkjörinu megi að hámarki nota eina milljón króna í kosningabaráttu sína hver. Einnig var samþykkt að setja 300 þúsund króna þak á auglýsingakostnað hvers og eins, auk þess sem þeim tilmælum var beint til frambjóðenda að auglýsingar snúist aðeins að hagnýtum atriðum eins og fundarboði en ekki auglýsingu á frambjóðandanum sjálfum sem persónu.
Aðspurður hvort kynjakvótar hafi verið ræddir á fundinum svarar Þorbjörn því játandi, en sú tillaga hafi komið fram að kjósendur í prófkjörinu yrðu að velja jafnmarga af hvoru kyni. Sú tillaga var hins vegar ekki samþykkt og því verða engir kynjakvótar í prófkjörinu.