Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 21 árs gamlan karlmann, Inga Pál Eyjólfsson, í 5 ára fangelsi fyrir manndrápstilraun en maðurinn réðist á hálfbróðir sinn á Hlemmtorgi í nóvember á síðasta ári og stakk hann með hnífi í bak og öxl.
Ingi Páll var einnig dæmdur til að greiða hálfbróður sínum 1,6 milljónir króna í skaðabætur auk málskostnaðar.
Fram kemur í dómnum, að mennirnir hittust á Hlemmtorgi eftir að hafa mælt sér þar mót. Til deilna kom milli þeirra og tók annar þeirra upp oddhvassan hníf með 13,4 cm blaði og stakk hinn tvisvar sinnum með hnífnum. Vegfarendur skárust í leikinn og en árásarmaðurinn komst undan á flótta. Hann var svo handtekinn á Vatnsstíg tæpri klukkustund síðar.
Maðurinn játaði sök. Hann sagðist hafa verið í mikilli amfetamínneyslu marga daga á undan þessu og einnig hafði hann neytt annarra lyfja, svo sem rítalíns og mógadons.
Í niðurstöðum dómsins segir, að Ingi Páll hafi beitt oddhvössum og stórum hnífi af svo miklu afli að hnífurinn fór í gegnum herðablað og djúpt inn í vinstra lunga. Verði að telja að hending ein hafi ráðið því að ekki hlaust bani af atlögunni og að Inga Páli hafi hlotið að vera það ljóst að langlíklegast væri að svo færi.
Við ákvörðun refsingar tók dómurinn tillit til þess, að sá sem fyrir árásinni varð biðji bróður sínum vægðar og hafi fyrirgefið honum árásina. Þá hafi einnig komið fram, að móðir þeirra eigi við erfiðan sjúkdóm að stríða.