Kvalræði sjávarútvegsráðherra

Hvalveiðimenn geta ekki gengið að hvalveiðiheimildum vísum því  allar veiðiheimildir verða teknar til endurskoðunar og gætu heimildir því breyst á strax á þessu ári. Stór svæði verða friðuð fyrir hvalaskoðun, samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðherra sem staðfesti að öðru leyti nauðugur, viljugur reglugerð fyrirrennara sins um hvalveiðar.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra, segist ákvörðun sína byggja á vandaðri stjórnsýslu en hafnar því að hafa verið undir pólitískum þrýstingi vegna hótana um vantraustsyfirlýsingu á ríkisstjórnina ef ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hefði verið felld úr gildi. Strax verður hafist handa við endurskoða lögin sem reglugerðin byggir á og því er ekki hægt að ganga út frá því vísu að hægt verði að stunda hvalveiðar næstu árin, enda stefnt að því að leggja fram nýtt frumvarp á yfirstandandi þingi.

Ráðherrann kann fyrirrennara sínum litlar þakkir fyrir sendinguna og segir að ef það sé eitthvað sem fái algera falleinkunn í málinu sé það stjórnsýsla Einars K. Guðfinnssonar og framganga Sjálfstæðisflokksins.

Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands býst við alþjóðlegum mótmælum gegn Íslandi í kjölfarið. Veiðarnar hafi skaðleg áhrif á ímynd landsins en nánast engin eftirspurn sé eftir kjötinu og ágóðinn því lítill. Hann segir sorglegt að fyrsti vinstri  græni sjávarútvegsráðherrann skuli taka þessa ákvörðun. Sé það svo að ráðherranum hafi ekki verið lagalega stætt á öðru sýni það svo ekki verði um villst hversu siðlaus ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hafi verið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert