Ekki samstaða um matsmenn

Tekist var á um það fyrir héraðsdómi í gærmorgun hvort lögmenn olíufélaganna ESSO (Kers), Olís og Skeljungs fái að dómkveða matsmenn til að vinna nýja undirmatsbeiðni í máli félaganna gegn Samkeppniseftirlitinu. Eftir nokkurt karp var málið lagt í hendur dómara sem skilar úrskurði í næstu viku.

Áður en til málflutnings vegna kröfunnar kom var karpað um dómkvadda matsmenn sem vinna eiga yfirmatsbeiðni að kröfu verjenda olíufélaganna. Málsaðilar gátu aðeins komið sér saman um einn matsmanna, Ólaf Ísleifsson hagfræðing, en lögmenn félaganna voru ekki á eitt sáttir um hina tvo, þ.e. Gunnar Haraldsson og Katrínu Ólafsdóttur hagfræðinga. Bókuðu verjendur að þeir teldu Gunnar og Katrínu vanhæf til að sinna störfunum þar sem þau hefðu tjáð sig um olíufélögin í annarri matsgerð.

Undirmatsbeiðnin sem lögmenn olíufélaganna fara fram á lýtur að ávinningi félaganna vegna meints samráðs þeirra. Heimir Örn Herbertsson, lögmaður Samkeppniseftirlitsins, fór fram á að kröfunni yrði synjað, m.a. þar sem ítarleg gögn um málefnið liggi fyrir í málinu og sönnunarfærslan væri þarflaus.

Verjendurnir töldu hana hins vegar þarfa og kæmi til vegna gagnaöflunar Samkeppniseftirlitsins. Töldu þeir eðlilegt að olíufélögin fengju tækifæri til að svara fyrir sig.

Í hnotskurn


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert