Jóhann Óli Guðmundsson, stjórnarmaður í Tali, segir Tal hafa átt í frelsisbaráttu við fínslípaða yfirgangsmaskínu og vísar þar til forsvarsmanna Teymis. Jóhann Óli segir í yfirlýsingu að það sé kunnara en frá þurfi að segja að þjóðin súpi nú seyðið af sambærilegri háttsemi í víðara samhengi.
Yfirlýsing frá Jóhanni Óla Guðmundssyni, stjórnarmanni í Tali:
Brotamenn stanga vegginn
„Í tilefni yfirlýsinga frá forsvarsmönnum Teymis í fjölmiðlum í dag er rétt að halda til haga eftirfarandi staðreyndum:
Það er staðreynd að Samkeppniseftirlitið hefur um nokkurra mánaða skeið haft háttsemi forsvarsmanna Teymis gagnvart Tali til sérstakrar skoðunar. Telur það sig hafa rökstuddan grun um að þeir hafi alvarlega og margítrekað brotið ákvæði samkeppnislaga og einnig farið gegn sérstökum úrskurðum eftirlitsins. Alvarleg brot á samkeppnislögum leiða jafnan til verulegra viðurlaga. Má í því sambandi nefna 2-3ja ára fangelsisdóm og háar fjársektir sem stjórnendur fyrirtækis í Bretlandi voru dæmdir í vegna brota á samkeppnislögum þar í landi nýverið. Eru þá ótalin viðurlög viðkomandi fyrirtækis. Er greint frá þessu á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.
Það er einnig staðreynd að Samkeppniseftirlitið treysti ekki Teymi til að fara með 51% hlut sinn í Tali og neyddist því til að svipta það rétti til stjórnarsetu. Varð að beita Teymi dagsektum uns það neyddist til að víkja sínum fulltrúum frá borði. Er það einsdæmi í íslensku viðskiptalífi að yfirvöld þurfi að grípa til jafn harkalegra ráðstafana. Samkeppniseftirlitið skipaði síðan tvo óháða fulltrúa í stjórn Tals í þeirra stað en dólgslegar yfirlýsingar forsvarsmanna Teymis í garð hinna lögskipuðu stjórnarmanna urðu til þess að þeir hröktust á brott eftir nokkurra daga viðveru. Mun Samkeppniseftirlitið væntanlega skipa nýja stjórnarmenn innan tíðar.
Það hefur þráfaldlega komið fram opinberlega að brottrekstur Hermanns Jónassonar á stjórnarfundi Tals 30. desember sl. og ráðning Ragnhildar Ágústsdóttur í kjölfarið fór algerlega í bága við lög félagsins. Nú hefur fjármálaráðuneytið úrskurðað að tilkynning til fyrirtækjaskrár í tengslum við þá gjörninga hafi verið ólögleg og hefur ráðuneytið gert fyrirtækjaskrá að afmá skráninguna. Á grundvelli þessa er Hermann því lögmætur forstjóri félagsins með prókúru fyrir þess hönd og Ragnhildur eðlilega látið af störfum.
Með lögum skal land byggja virðist vera illskiljanlegt orðasamband forsvarsmönnum Teymis. Tal, sem sjálfstætt félag, hefur átt í frelsisbaráttu við fínslípaða yfirgangsmaskínu og er það kunnara en frá þurfi að segja að þjóðin sýpur nú seyðið af sambærilegri háttsemi í víðara samhengi.
Forsvarsmenn Teymis hafa hörfað úr hverju víginu í annað í varnarbaráttu sinni við að draga athygli almennings frá kjarna málsins sem snýst um margítrekuð lagabrot gegn samkeppnisfrelsi Tals. Þess í stað hafa þeir reynt að telja almenningi trú um að deilan snúist um fjárhagsleg atriði milli hluthafa. Er nöturlegt að hugsa til þess að áhrifamiklir aðilar, sem eiga að vera fyrirmynd í viðskiptalífi þjóðarinnar, skuli telja sér sæmandi að koma fram með þessum hætti og stanga vegginn frammi fyrir alþjóð. - Er mál að linni.“