Geysir í Haukadal er ekki friðlýstur og nýtur því ekki verndar

Strokkur að gjósa.
Strokkur að gjósa. mbl.is/RAX

Geysissvæðið í Haukadal nýtur engrar formlegrar náttúruverndar. Í frétt mbl.is í gær kom fram að Umhverfisstofnun beri ekki ábyrgð á að tryggja lágmarksöryggi ferðamanna á svæðinu. Það er vegna þess að svæðið er ekki friðlýst. Margir hafa slasast við Geysi.

Eitt mikilvægasta málið í íslenskri ferðaþjónustu

Ari Arnórsson leiðsögumaður hefur lengi haft áhyggjur af aðbúnaðinum við Geysi og hefur leitað ýmissa leiða til úrbóta.  „Geysir er verðmætasta náttúruvætti á Íslandi og það er eitt mikilvægasta málið í íslenskri ferðaþjónustu að aðkoma þar sé örugg,” segir Ari.

Að sögn Ólafs Jónssonar, deildarstjóra hjá Umhverfisstofnun þarf svæðið að vera friðlýst  til þess að stofnunin geti hafi skýra aðkomu að málum er varða framkvæmdir og öryggismál.

En hvers vegna er ein stærsta náttúruperla okkar Íslendinga ekki friðlýst?

Ástæðan er eignarhald á Geysissvæðinu, en um alllangt skeið hafa staðið yfir samningaviðræður ríkisins og eigenda landsins, sem umlykur helsta hverasvæðið. Ríkið á Geysi og Strokk og flesta þekktustu hverina, en stærstur hluti svæðisins er í einkaeign. Samningar hafa enn ekki náðst á milli landeigenda og ríkisins.

Friðlýsing hefur ekki náð fram að ganga

Í náttúruverndaráætlun fyrir árin 2004-2008 er lagt til að Geysir verði friðlýstur. Það hefur þó ekki náð fram að ganga. Geysir er ekki nefndur í náttúruverndaráætlun fyrir árin 2009 – 2013. Ólafur segir ástæðuna vera að þar sem friðlýsing Geysis náði ekki fram að ganga á árunum 2004 - 2008, þá hafi verið ákveðið að flytja verkefnið yfir á næstu náttúruverndaráætlun. 

Á vef Umhverfisstofnunar segir að friðlönd séu landsvæði sem mikilvægt er að varðveita vegna landslags, gróðurfars eða dýralífs. Þar segir ennfremur að þrjátíu og átta svæði á landinu séu nú lýst friðlönd.  Geysir er heldur ekki á lista stofnunarinnar yfir náttúruvætti, en á heimasíðu hennar segir að náttúruvætti séu sérstæðar náttúrumyndanir og eru hverir nefndir þeirra á meðal.

Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, sendi í febrúar bréf til umhverfisráðuneytisins þar sem því var lýst yfir að friðlýsing og landvarsla á þeim hluta Geysissvæðisins sem er í eigu ríkisins myndi hefjast. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun hefur ekki borist svar frá ráðuneytinu.

Margir hafa slasast á Geysissvæðinu

Af og til berast af því fréttir að ferðamenn slasist eða séu hætt komnir á Geysisvæðinu.  Á mbl.is í gær var sagt frá ferðamanni sem handleggsbrotnaði þar um helgina, bresk hjón sluppu naumlega við brunaslys við Geysi í desember síðastliðnum og spænskur ferðamaður hlaut annars stigs brunasár á báðum fótum síðastliðið sumar. Ari segir ferðamenn leggja sig í hættu heimsæki þeir Geysissvæðið.

En hver er ábyrgð þeirra sem ákveða að heimsækja svæðið?

Ari segir að leiðsögumenn vari ferðamenn við; ekki fara út af stígunum og ekki dýfa höndunum í heitt vatn. „Mikil áhersla hefur verið lögð á bílaleigubíla á undanförnum árum og að fólk ferðist á eigin vegum. Hver varar þessa ferðamenn við og hvar fá þeir fræðslu um hætturnar á Geysissvæðinu?” spyr Ari.

Hvorki náttúran né fólkið sem heimsækir hana eru varin

Ari segir að merkingar á svæðinu séu nánast engar, þar sé eitt skilti með máðri áletrun þar sem fólk er varað við hættum á svæðinu. „Þar fyrir utan er svæðið í mikilli eyðileggingarhættu. Þarna er rusl út um allt og fólk hendir smápeningum ofan í hverina.”

En hvaða leiðir sér Ari til úrbóta?

„Mikilvægast er að þarna sé landvörður allt árið, en ekki bara í tvo mánuði yfir sumartímann eins og nú er. Tiltölulega lítið mál væri að setja upp varnir á svæðinu, mér detta í hug timburpallar fyrir ferðamenn. Annars er það mitt mat að Geysissvæðinu eigi að raska eins lítið og hægt er, að takmarka inngrip í náttúruna eins og hægt er.”

Hvernig hefur Félag leiðsögumanna beitt sér í þessu máli?

„Við höfum margoft fundað með Umhverfisstofnun, sent þangað bréf og tölvupósta. Fyrir utan það vitum við til þess að allir helstu ferðaþjónustuaðilar landsins hafa rætt þessi sömu mál við Umhverfisstofnun,” segir Ari. 

Ólafur segir að stofnuninni hafi borist fjölmörg erindi frá leiðsögumönnum. „Okkur finnst þetta ekki vera góð staða og vonandi verður hægt að leysa þetta.”


Rýnt við gufuna við Geysi
Rýnt við gufuna við Geysi Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert