Nova kærir Tal fyrir meiðandi ummæli

Liv Bergþórsdóttir er framkvæmdastjóri NOVA.
Liv Bergþórsdóttir er framkvæmdastjóri NOVA. mbl.is/Brynjar Gauti

Fjarskiptafyrirtækið Nova hefur kært Tal til Neytendastofu fyrir meiðandi ummæli. Málið varðar grein sem Sigmar Vilhjálmsson, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Tals, skrifar í Morgunblaðið í dag.

Í greininni staðhæfir hann að sá sem hringir í Nova símanúmer þurfi að greiða fyrir símtalið þó ekki sé svarað í símann. Þessi staðhæfing Sigmars er röng að sögn forsvarsmanna Nova.

Fram kemur að gjaldtaka hefjist aðeins þegar svarað sé í símann líkt og hjá öðrum símafyrirtækjum á Íslandi, hvort heldur sem biðtónninn sé tónlist eða ekki.

Harmar mistök

Sigmar hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að komið hafi í ljós að um mistök hafi verið að ræða.

„Nova rukkar ekki fyrir símtöl þar sem ekki næst í viðmælandann og harma ég mjög að hafa fullyrt það í greininni. Ég fagna samkeppni frá Nova og treysti að fyrirtækið hafi sömu markmið og Tal, sem er að auka samkeppni á íslenskum fjarskiptamarkaði,“ segir hann.

Kæran stendur

 „Sigmar Vilhjálmsson hefur starfað á íslenskum fjarskiptamarkaði í um eitt ár. Manni í hans stöðu ætti að vera ljóst að Vinatónaþjónusta Nova, sem hefur verið í boði síðan 1. desember 2007, virkar alls ekki með þeim hætti sem hann lýsir í grein sinni í Morgunblaðinu í dag,“ segir í tilkynningu frá Nova.

„Í ljósi þessa hefur Nova ákveðið að kæra Tal fyrir skaðleg og meiðandi ummæli. Tal reynir með þessum hætti að koma af stað neikvæðri og skaðlegri umræðu um þjónustu Nova, sem á við engin rök að styðjast.

Vinatónar eru viðskiptavinum Nova að kostnaðarlausu og til þess fallnir að viðskiptavinir viti að símtalið kosti þá 0 krónur, enda býður fyrirtækið upp á „0 kr. Nova í Nova,“ segir ennfremur.

Þá er tekið fram að það sé ekki heldur rétt Nova stýri verðlagningu samkeppnisaðila þegar hringt sé í Nova.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert