Orkuveitan ætlar að áfrýja

„Mín fyrstu viðbrögð eru þau að þessi niðurstaða kemur okkur verulega á óvart og ég átti ekki von á henni. Ég geri ráð fyrir því að þessu verði áfrýjað til Hæstaréttar. Það verður gert," segir Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Fyrirtækið var í morgun dæmt til að greiða Hafnarfirði 7,6 milljarða króna að viðbættum um 1,8 milljörðum króna í dráttarvexti fyrir hlut bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja (HS) í morgun. Dráttarvextirnir munu halda áfram að safnast upp á meðan að málið er í áfrýjunarferli.

Hjörleifur segir að málsástæður OR hafi verið þær að fyrirtækinu hefði ekki verið heimilt að kaupa hlut Hafnarfjarðar, en um er að ræða tæplega fimmtán prósent hlut í HS. „Samkeppniseftirlitið og áfrýjunarnefnd samkeppnismála höfðu komist að þeirri niðurstöðu að við mættum ekki eiga nema tíu prósent í félaginu. Við áttum fyrir sextán prósent og því var erfitt fyrir okkur að bæta við okkur tæpum fimmtán prósentum. Við töldum að lög landsins stæðu gegn því. Dómarinn kemst hins vegar að annarri niðurstöðu."

Hluturinn verður seldur

Að sögn Hjörleifs mun hluturinn fara í söluferli ef endanleg niðurstaða verður á þann veg að OR verður að kaupa hann. „Þegar Hafnarfjörður tók ákvörðun um að selja okkur þetta þá vorum við af fullum heillindum að vinna að því að kaupa hlutinn þar til að samkeppnisyfirvöld gripu inn í málið. Við vorum að vinna að því að fjármagna þessi kaup. En það er alveg ljóst núna að Orkuveitan hefur ætlað að selja hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja, þannig að ef við myndum eignast þennan hlut þá yrði hann settur í sölumeðferð líka."

Erlendir hafa sýnt áhuga

Hann telur OR ekki eiga eftir að lenda í erfiðleikum með að fjármagna þessi kaup nú ef Hæstiréttur úrskurðar að þau eigi að standa. „ Ég tel að við getum gert það. Þetta er góð eign. En það verður að koma í ljós og það gefst töluverður tími til þess að velta þeim hlutum fyrir sér ef málið fer líka fyrir Hæstarétt. Ég held líka að bankar og lánastofnanir séu nú að fara að taka við sér úti um allan heim. Það hafa aðilar sýnt þessari eign áhuga, bæði vestan hafs og austan. Það hafa komið hingað aðilar og viljað skoða þetta. Við erum búnir að ráða fyrirtæki til að vinna að sölunni fyrir okkur og það ferli er í gangi."

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka