Fréttaskýring: Keypt aðgengi að fjölmiðlum vafasamt

Frambjóðendum í prófkjörum stjórnmálaflokkanna stóð sú þjónusta til boða á sjónvarpsstöðinni ÍNN að kaupa sér hálftíma af útsendingartíma stöðvarinnar til að kynna sjálfa sig og málefni sín.

Að mati Ingva Hrafns Jónssonar, sjónvarpsstjóra ÍNN, telst slík dagskrá ekki auglýsing og ekki sé heldur um það að ræða að viðtöl séu seld, heldur aðeins útsendingartímar. Kaupandanum er hins vegar í sjálfsvald sett hvert umfjöllunarefnið er skv. þessu tilboði, hverjir viðmælendur eða spyrlar eru og hvaða spurningar eru lagðar fram.

Þessi dagskrárgerðaraðferð stöðvarinnar er á gráu svæði að ýmsu leyti. M.a. má færa má rök fyrir því að tekjuöflun af þessu tagi stangist á við útvarpslög nr. 53/2000 sem tilgreina að aðeins sé heimilt að afla tekna með afnotagjaldi, áskriftargjaldi, auglýsingum, fjarsöluinnskotum, kostun og sölu eða leigu á vörum. Hulda Árnadóttir lögfræðingur bendir á að útvarps- og sjónvarpsstöðvum séu settar þessar skorður m.a. til að vernda ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra. Sjálfstæði ritstjórna er ekki fyrirskipað með lögum, en skýrar reglur um bæði eignarhald og rekstur geta þó stuðlað að því að það sé tryggt.

Verður að vera skýrt afmarkað

Raunar er óljóst undir hvaða skilgreiningu þessi dagskrárgerð ÍNN flokkast. Samkvæmt útvarpslögum gildir þó einu hvort prófkjörsþættir stöðvarinnar teljast auglýsing, kostuð framleiðsla eða fjarsöluþættir, því í öllum tilfellum þurfa þeir að vera auðþekkjanlegir sem slíkir og afmarkaðir frá öðru dagskrárefni með myndskilti eða hljóðmerki fyrir og eftir þáttinn, enda eru duldar auglýsingar bannaðar með lögum.

Með þessu á að vera tryggt að áhorfendur velkist ekki í neinum vafa um að ekki sé um sjálfstæða dagskrárgerð að ræða. Deila má um hvort þessu hafi verið fylgt á ÍNN. „Okkur kemur ekki við hvernig prófkjörsmeðlimir nýta þetta,“ segir Ingvi Hrafn Jónsson. Sjónvarpsstöðin ritstýri í engu því sem kaupendur þessara dagskrárliða setja fram í þáttunum öðru en því að ærumeiðandi efni sé ekki sent út.

„Þeir kaupa þarna hálftímalangan upptökutíma í stúdíói án allra skuldbindinga. Að okkar mati er þetta langódýrasta auglýsingin sem völ er á og við höfum boðið stjórnmálaflokkunum þetta líka þegar líður að kosningum og við höfum fengið fyrirspurnir frá mörgum flokkum.“

Dögg Pálsdóttir, einn þeirra frambjóðenda sem nýttu sér tilboð ÍNN, vakti í kjölfarið máls á því að fá önnur úrræði stæðu þeim frambjóðendum til boða sem ekki hefðu „ókeypis áskrift að reglulegum viðtölum“ í þáttum sem kostaðir eru af skattgreiðendum, Silfri Egils og Kastljósi. Á hinn bóginn hlýtur það að teljast ekki síður andlýðræðislegt að efnahagur frambjóðenda eða aðgangur þeirra að fjármagni ráði því hversu vel þeir geta komið sjálfum sér á framfæri fyrir kosningar.

Nú er unnið að endurskoðun útvarpslaga, enda talið að þau séu að mörgu leyti orðin úrelt í heimi þar sem miðlun upplýsinga tekur sífellt á sig nýjar myndir. Hugsast getur að skýrar lagaheimildir verði þá fyrir dagskrárgerð líkt og þeirri sem ÍNN býður nú til sölu, en hún virðist ekki rúmast innan núgildandi laga.

Frelsið til að vita

Ástæða er til að gjalda varhug við dagskrárgerð með þessum hætti að mati Gísla Tryggvasonar, talsmanns neytenda. Í tilfelli prófkjörsþáttanna á ÍNN sé um að ræða pólitíska kynningu og því um hagsmuni kjósenda að ræða. Ef grunur vaknaði um að markaðsaðilar greiddu með sama hætti fyrir umfjöllun sem á að vera sjálfstæð, og brytu beinlínis á hagsmunum neytenda, myndi hann íhuga kæru.

„Aðalmálið er að það dyljist engum að það sé auglýsing, því það er hluti af tjáningarfrelsinu að vita hverjir eru að tjá sig og hvers vegna,“ segir Gísli. „Mér virðist þetta staðfesta það sem ég hef lengi talið að hér þarf sterka fjölmiðlastofnun sem hefur eftirlit með fjölmiðlum og hagsmunum neytenda, enda hefur mér fundist útvarpsréttarnefnd rög við að beita þeim valdheimildum sem hún hefur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert