Þorbjörn Haraldsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, var einn þeirra sem sat fastur í Fjarkanum, skíðalyftunni sem stöðvaðist í Hlíðarfjalli um klukkan tvö í dag. Hann lýsti, í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins, mikilli ánægju með framgöngu starfsmanna í Hlíðarfjalli. „Frammistaða þeirra var til mikillar fyrirmyndar. Gengið var fumlaust til verks, fólkið í stólunum var vel upplýst og allt gekk eins og í sögu. Þetta er greinilega vel æft,“ sagði Þorbjörn. „Sumum var auðvitað orðið dálítið kalt, en það er bara eðlilegt.“
Meðal þeirra sem voru í lyftunni voru tvíburasysturnar Særún Björk og Kristín Anna úr Hafnarfirði, sem voru með foreldrum sínum, Jónasi og Jóhönnu. Systrunum var orðið dálítið kalt og hlupu beint á klósettið þegar kom niður í Skíðastaði; voru alveg í spreng. En fljótlega eftir að þær fengu heitt kakó brostu þær fljótt á ný.
Um hundrað manns voru í lyftunni er hún stöðvaðist. Björgunarsveitarmenn úr björgunarsveitinni Súlum á Akureyri voru kallaðir á vettvang en þeim var snúið frá aftur þar sem hægt var að koma lyftunni af stað í svokallaða neyðarkeyrslu. Óvenjulangan tíma tók þó að koma neyðarkeyrslunni í gang og er það tókst hafði starfsfólk skíðasvæðisins þegar náð um 70 manns úr lyftunni.
Ekkert amaði að fólkinu þegar það kom úr lyftunni en mörgum var þó orðið kalt. Veður á svæðinu er hins vegar ágætt, hægur vindur, skýjað og vægt frost.