Máli Teymis vísað frá dómi

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag máli Teymis gegn Hermanni Jónassyni og Jóhanni Óla Guðmundssyni frá dómi og er Teymi gert að greiða þeim 180 þúsund krónur hvorum í málskostnað. Lögmaður IP-fjarskipta (Tal), en Teymi á 51% hlut í því félagi,  var ekki talinn hafa málflutningsumboð frá félaginu og málið því fellt niður varðandi IP-fjarskipti, sem höfðaði málið með Teymi.

Málið snérist um hvort ákvörðun á stjórnarfundi IP-fjarskipta  þann 30. desember 2008 um brottvikningu Hermanns Jónassonar úr starfi forstjóra og ráðningu Ragnhildar Ágústsdóttur í starfið hafi verið tekin með lögformlegum hætti.

Hermann og Jóhann Óli, eru eigendur Capital Plaza sem á 49% hlut í IP-fjarskiptum. Í málinu liggja fyrir yfirlýsingar Hermanns og Jóhanns Óla um að stjórn IP-fjarskipta ehf. hafi ekki veitt Sigurði G. Guðjónssyni hrl. málflutningsumboð. Þá kemur fram í yfirlýsingu frá Jóni Steinari Guðjónssyni, stjórnarmanni í IP-fjarskiptum ehf., að stjórnin hafi aldrei, samkvæmt fundargerðum, samþykkt að höfða mál fyrir hönd fyrirtækisins.

Sigurður byggði málflutningsumboð sitt á yfirlýsingu, dags. 24. mars sl., sem lögð var fram í málinu. Þar kemur fram að þau Þórdís Jóna Sigurðardóttir, fyrrverandi stjórnarformaður IP-fjarskipta ehf., og Ólafur Þór Jóhannesson, fyrrverandi stjórnarmaður í sama félagi, réðu hann til þess að gæta hagsmuna IP-fjarskipta ehf. fyrir stjórnvöldum og dómstólum vegna andmæla Hermanns og Jóhanns Óla, frá 6. janúar 2009 við skráningu tilkynningar um breytingu á framkvæmdastjórn og prókúru hjá IP-fjarskiptum ehf. samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra frá 31. desember 2008.

Þá lá fyrir staðfesting dags. 27. mars sl. frá stjórnarmönnunum í IP-fjarskiptum ehf., þeim Arnþór Halldórssyni og Telmu Halldórsdóttur, en þau tóku sæti í stjórninni 2. mars sl., að stjórnin hafi ekki tekið til umfjöllunar málflutningsumboð Sigurðar G. Guðjónssonar vegna dómsmáls þessa.

 

Þau Þórdís Inga Sigurðardóttir og Ólafur Þór Jóhannesson fóru úr stjórn IP-fjarskipta ehf. 6. febrúar 2009. Þau hafa því ekki umboð til að binda IP-fjarskipti ehf. eftir þann tíma. Því liggur í raun ekkert fyrir um það í málinu að Sigurði G. Guðjónssyni hrl. hafi verið veitt umboð til málshöfðunar þessarar fyrir hönd IP-fjarskipta ehf.

Í ljósi þessa er það niðurstaða dómsins að stefndu hafi sannað að Sigurður G. Guðjónsson hrl. hafi ekki haft málflutningsumboð í máli þessu.

Dómurinn í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert