Ísland indælt áhugavert samfélag

Ísland hélt í ranga átt í nokkur ár, segir Michael …
Ísland hélt í ranga átt í nokkur ár, segir Michael Lewis.

Bandaríski rithöfundurinn Michael Lewis, sem skrifaði umdeilda grein um íslenska fjármálahrunið í tímaritið Vanity Fair, segir að í greininni hafi endurspeglast sú tilfinning hans, að Ísland sé indælt og áhugavert samfélagi sem hafi því miður stefnt í ranga átt í nokkur ár. 

„Ég reikna með, að það hafi verið smávægilegt háð í gangi," sagði Lewis um greinina við New York Times. „En það var að mínum dómi ekki alveg óverðskuldað og það var ekki fjandsamlegt."

New York Times  segir, að margir hafi tekið upp þykkjuna fyrir Ísland og Íslendinga eftir að hafa lesið grein Lewis og talið hana vera árás.  New York Times segir greinilegt, að hvað sem grein Lewis líður þyki Íslendingum óþægileg sú athygli, sem þeir hafa fengið frá því íslenska bankakerfið hrundi sl. haust. 

Blaðið vitnar m.a. í bloggfærslu lesanda tímaritsins New York eftir Jonas Moody, Bandaríkjamanns sem býr á Íslandi. Þar segir Moody, að fullyrðing Lewis um að Íslendingar séu einhver skyldleikaræktaðasta þjóð í heimi sé móðgun og rannsókn á erfðaefni Íslendinga sýni, að þeir eigi rætur að rekja til blöndunar norrænna Y litninga og X litninga frá Bretlandseyjum.

Þá vísaði Moody einnig á bug fullyrðingu Lewis um að aðeins séu um það bil 9 mannanöfn á Íslandi og sagði að nærri 1700 viðurkennd nöfn væru á mannanafnaskrá.  

New York Times hefur eftir talsmanni Vanity Fair, að farið hafi verið yfir grein Lewis og staðreyndir hafi verið staðfestar. Segir tímaritið að rannsóknir sýni að erfðamengi Íslendinga sé eitt það einsleitasta í Evrópu. Hins vegar hafi fullyrðingin um nöfnin verið augljósar og vísvitandi ýkjur.

New York Times segir, að sá hluti greinar Lewis, sem fjallaði um álfa og álfatrú á Íslandi, hafi vakið mesta athygli á netinu. Í greininni sagði Lewis, að álfyrirtækið Alcoa hefði orðið að fá það staðfest, að svæðið þar sem álverið í Reyðarfirði var reist, væri ekki heimkynni álfa áður en framkvæmdir gátu hafist. 

Grein Lewis í Vanity Fair

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert