Sakborningar í Héraðsdómi

Flugfloti Landhelgisgæslunnar var á flugvellinum á Höfn í Hornafirði í …
Flugfloti Landhelgisgæslunnar var á flugvellinum á Höfn í Hornafirði í dag. mbl.is/Sigurður Mar

Þrír karlmenn á þrítugsaldri, sem handteknir voru í nótt í tengslum við umfangsmikið fíkniefnasmygl, voru undir kvöld leiddir fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem krafist var gæsluvarðhalds yfir þeim.

Fíkniefnin voru flutt með skútu til landsins og kom hún upp að austanverðu landinu í gær. Um var að ræða yfir 100 kíló af fíknefnum samkvæmt heimildum mbl.is. Mennirnir þrír, sem síðar voru handteknir, fóru frá Djúpavogi á hraðskreiðum gúmmíbát, sóttu fíkniefnin og fluttu í land. Fíkniefnin fundust síðar í bíl eins mannanna.

Skútan sigldi síðan frá landinu að nýju. Varðskip er nú á leið með sérsveitarmenn innanborðs til að taka skútuna, sem er á siglingu fyrir austan land.  

Allir mennirnir, sem handteknir voru, hafa komið við sögu lögreglu áður, þar af tveir í tengslum við fíkniefnamisferli. 

Lögreglan í Reykjavík rannsakar nú málið. Að aðgerðunum komu embætti ríkislögreglustjóra, lögregluembætti á Austurlandi, Landhelgisgæslan og danski flugherinn, sem lánaði eftirlitsflugvél.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert