Skútunnar enn leitað

Slöngubátur sem er talinn hafa verið notaður til að sækja …
Slöngubátur sem er talinn hafa verið notaður til að sækja fíkniefni. AS

Í sameiginlegum aðgerðum lögreglunnar á Eskifirði og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru þrír menn handteknir í nótt grunaðir um stófelld fíkniefnabrot. Tveir voru handteknir við Djúpavog og einn í grennd við Höfn, samkvæmt tilkynningu lögreglunnar.

Í bifreið eins þeirra fannst umtalsvert magn af fíkniefnum sem grunur leikur á um að hafi verið flutt til landsins sjóleiðina. Lögreglan segir, að ekki sé unnt að svo stöddu að greina frá því um hve mikið magn fíkniefna er að ræða eða tegund þar sem hvorki vigtun né nákvæm greining hafi farið fram. Ljóst sé þó að um tugi kílóa af fíkniefnum er um að ræða og af fleiri en einni tegund.

Skútu, sem talin er að hafa verið notuð til að flytja efnin til landsins, er nú leitað. Landhelgisgæslan stendur nú fyrir umfangsmiklum aðgerðum við leitina þar sem notaðar eru þyrlur, flugvél og varðskip. Um borð í varðskipinu eru sérsveitarmenn frá embætti ríkislögreglustjóra.

Mennirnir, sem handteknir voru, eru allir um þrítugt. Allir þeirra hafa komið við sögu lögreglu áður og þar af tveir þeirra í tengslum við fíkniefnamisferli.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið við rannsókn málsins. Yfirheyrslur yfir hinum handteknu hafa staðið yfir og krafa um gæsluvarðhald verður lögð fram í kvöld. Við rannsókn málsins hefur lögreglan framkvæmt húsleitir á tveimur stöðum og lagt m.a. hald á lítilsháttar af fíkniefnum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka