Á leið til landsins

Sérsveitarmenn síga úr þyrlu niður í varðskipið Tý.
Sérsveitarmenn síga úr þyrlu niður í varðskipið Tý. mynd/LHG

Varðskipið TÝR er á leið til landsins með seglskútuna sem talið er að hafi verið notuð við fíkniefnasmygl til landsins. Ekki liggur fyrir hvenær hún kemur til lands samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni né heldur hvar hún kemur að landi. Sérsveit lögreglunnar handtók þrjá um borð í skútunni.

Varðskipið TÝR stöðvaði kl. 22:35 í gærkvöld för seglskútu djúpt út af SA-landi vegna gruns um stórfellt fíkniefnabrot. Sérsveitarmenn fóru frá varðskipinu um borð í skútuna og handtóku þrjá menn sem voru að því loknu færðir um borð í varðskipið. Þjóðerni þeirra hefur ekki verið gefið upp.

Þrír menn um þrítugt voru í gærkvöldi úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 11. maí grunaðir um stórfellt smygl á fíkniefnum. Efnin komu hingað með skútu og er talið að mennirnir hafi sótt efnið um borð í hana langt á haf út.

Lögreglan áætlar að um sé að ræða meira en 100 kíló af hörðum efnum sem kallað er, hugsanlega amfetamín eða kókaín. Ekki munu liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um magn og tegund fyrr en tæknideild lögreglunnar hefur vigtað efnin og efnagreint. Það er mat lögreglunnar, að þetta sé stærsta fíkniefnamál sem upp hefur komið hér á landi.

Komu að landi í Gleðivík

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hafði lögreglan fylgst með ferðum mannanna um nokkurn tíma. Þeir komu að á laugardagskvöldið og tóku land í Gleðivík, sem er vestan við aðalhöfnina á Djúpavogi. Slönguhraðbáturinn var fullur af töskum, sem mennirnir settu í skottið á Toyota Hilux jeppa. Var skottið sneisafullt.

Einn þremenninganna lagði af stað á jeppanum áleiðis til Reykjavíkur. Hann var handtekinn í fyrrinótt á hringveginum, rétt við afleggjarann til Hafnar í Hornafirði. Hinir tveir voru handteknir á öðrum bíl á þjóðveginum nálægt Djúpavogi.

Ómögulegt er að meta söluverðmæti þessa magns fyrr en búið er að vigta það og efnagreina. Það mun væntanlega skipta hundruðum milljóna.

Lögregluaðgerðin var mjög umfangsmikil og komu að henni embætti ríkislögreglustjóra, lögregluembætti á Austurlandi, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu auk tollgæslunnar, Landhelgisgæslunnar og danska flughersins, sem lánaði eftirlitsflugvél. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið við rannsókninni og var byrjað að yfirheyra mennina í gærkvöldi.

Einn þeirra sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald í gærkvöldi
Einn þeirra sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald í gærkvöldi mbl.is/Golli
Skútan, sem Landhelgisgæslan stöðvaði í gærkvöldi.
Skútan, sem Landhelgisgæslan stöðvaði í gærkvöldi. mynd/LHG
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert