Skútan á leið í land

Skipin á siglingu suðaustur af landinu nú síðdegis.
Skipin á siglingu suðaustur af landinu nú síðdegis. mbl.is/Árni Sæberg

Belgíska seglskútan Sirtaki, sem notuð var til að smygla 109 kílóum af fíkniefnum til Íslands um helgina, er nú á leið til Íslands í fylgd varðskipsins Týs. Skipin eru nú um 45 sjómílur suður af Hvalbak og var meðfylgjandi mynd tekin þar. Hafa þau lagt að baki 110 sjómílur frá því Týr sigldi skútuna uppi á ellefta tímanum í gærkvöldi en þá var skútan  65 sjómílur frá Færeyjum.

Eiga skipin tvö nú eftir um 80 sjómílna siglingu til Eskifjarðar en gert er ráð fyrir að þau komi þangað í fyrramálið. Veður er sæmilegt á þessum slóðum og er vindhraði um 25 hnútar eða 12-15 metrar á sekúndu. 

Skútan er 40 fet á lengd og skráð í Belgíu. Hún er í eigu fyrirtækis, sem heitir Channel Sailing og leigir út skútur og báta. 

Þrír menn voru um borð í skútunni þegar sérsveitarmenn fóru um borð í hana í gærkvöldi. Voru þeir handteknir og eru á leið til lands í skipunum.

TF-Sýn, flugvél Landhelgisgæslunnar, flaug yfir skipin nú síðdegis. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka