Eftir Guðna Einarsson
Áhöfn íslensks fiskiskips sem var að veiðum suðaustur af landinu á laugardaginn gerði lögreglunni viðvart um ferðir smyglskútunnar Sirtaki sem þá var á leið til landsins. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins þótti sjómönnunum grunsamlegt að sjá skútu á þessum slóðum á þessum árstíma. Varðskipið Týr er væntanlegt með skútuna til hafnar um áttaleytið á Eskifirði.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði á blaðamannafundi í gær að aðgerðirnar, sem leiddu til handtöku sex manna og haldlagningar 109 kg af fíkniefnum, hefðu verið í tengslum við rannsókn sem fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og tollgæslan hefðu unnið að í sameiningu í allnokkurn tíma.
Talið er að þrír menn hafi farið á hraðskreiðum slöngubáti frá Djúpavogi og átt stefnumót við skútuna um 15-20 sjómílur suður af Papey um kl. 20.00 á laugardagskvöld. Þeir lönduðu svo fengnum í Gleðivík við Djúpavog og þar skildi leiðir. Einn hélt suður firðina á pallbíl með fíkniefnin. Lögreglan á Höfn stoppaði bílinn um nóttina á þjóðvegi 1, rétt vestan við afleggjarann að Höfn.
Í bílnum fundust fíkniefnin sem grunur leikur á að hafi verið sótt í skútuna. Einnig var í bílnum haglabyssa, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Hinir tveir voru á amerískum jeppa og ætluðu norður um. Lögreglumenn frá Eskifirði og úr sérsveitinni stoppuðu þá rétt utan við Djúpavog. Þremenningarnir munu ekki hafa sýnt neinn mótþróa og virtist handtakan koma þeim mjög á óvart, að sögn lögreglu.