Skútunni siglt í örugga höfn

Sirtaki siglir út Eskifjörð í dag.
Sirtaki siglir út Eskifjörð í dag. mbl.is/Helgi Garðarsson

Skútan Sirtaki, sem notuð var til að flytja 109 kg af fíkniefnum til landsins í síðustu viku, sigldi seglum þöndum út Eskifjörð nú síðdegis. Skútan kom þangað í morgun í fylgd varðskipsins Týs en nú er verið að flytja hana til.

Að sögn Jónasar Vilhelmssonar, yfirlögregluþjóns á Eskifirði, er skútan enn í vörslu lögreglunnar þar. Hins vegar var ákveðið að flytja hana á öryggari stað þar sem ekki sé auðvelt að geyma hana í Eskifjarðarhöfn. Leitað var í skútunni í dag en ekki hafa fengist upplýsingar hvort eitthvað fannst.

Þrír menn, sem voru handteknir um borð í skútunni á ellefta tímanum á sunnudagskvöld, voru í dag úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 14. maí. Þeir voru fluttir frá Egilsstöðum í dag með flugvél Flugmálastjórnar til Selfoss og þaðan í fangelsið að Litla-Hrauni.

Fyrirspurnir um Sirtaki  

Belgíska bátaleigan Channel Sailing, eigandi smyglskútunnar Sirtaki, hefur fengið fyrirspurnir frá áhugasömum kaupendum á Íslandi um hvort skútan sé föl.  Einnig hafa íslenskir fjölmiðlar haft samband.

Samkvæmt upplýsingum frá bátaleigunni tók hollenskur maður skútuna á leigu í Zeebrügge 11. apríl s.l. Skútan var leigð í vær vikur og var leiguverðið 3.400 evrur, eða rúmar 570 þúsund krónur. Leigjandinn kvaðst ætla að sigla til suðurstrandar Englands, London eða Hollands og fékk sjókort af því svæði. Trygging skútunnar gildir ekki fyrir norðan 63°N. Stefnumótsstaður skútunnar og hraðslöngubátsins var 15-20 sjómílur suður af Papey og því norðan við þau mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert